Strumparnir [1] (1979-)

Glaðbeittir strumpar í átveislu

Allir þekkja strumpana smávöxnu en þeir hafa glatt unga sem aldna í áratugi hvort sem er í formi myndasagna, teiknimynda, bíómynda, tónlistar eða páskaeggjum og öðru sælgæti. Hér á landi hafa komið út nokkrar plötur með söng þessara belgísk-ættuðu bláu skógarvera.

Strumparnir (The Smurfs) eru runnir undan rifjum belgíska teiknarans Peyo sem skóp þá upphaflega sem aukapersónur í teiknimyndasögu um Hinrik og Hagbarð árið 1958. Strumparnir eru dvergvaxnar verur bláar að lit sem búa í húsum búnum til úr sveppum og lúta stjórn yfirstrumps, þeir lifa að mestu áhyggjulausu lífi en þurfa þó að gæta sín á galdrakarlinum Kjartani og Brandi kettinum hans. Peyo hóf síðar að teikna sérstakar myndasögur um strumpana sem nutu mikilla vinsælda í Belgíu og víðar, og svo fór að samhliða bókunum gaf hollenskur söngvari og leikari að nafni Pierre Kartner út smáskífu þar sem hann söng The Smurfs song undir gervinu Vader Abraham (Faðir Abraham), lagið varð feikivinsælt og var svo gefið út í Bretlandi þar sem það varð meðal söluhæstu smáskífna Bretlands árið 1978. Hróður The Smurfs barst hingað til lands og vorið 1979 kom út á vegum hljómplötuútgáfunnar Steina platan Haraldur í Skrýplalandi en umræddur Haraldur (í gervi föður Abrahams) er Sigurðsson og er bróðir Ladda, sú plata naut mikilla vinsælda en á sama tíma vann bókaútgáfan Iðunn að þýðingu á teiknimyndasögum um The Smurfs og hafði gefið þeim nafnið Strumparnir – hvorugur aðilinn hafði vitneskju um hinn enda var útgáfurétturinn á tónlistinni og teiknimyndasögunum ekki á sömu höndum niðri í Evrópu. Fyrstu bækurnar komu út þetta sama ár.

Þrátt fyrir vinsældir Haraldar og skrýplanna varð nafn strumpanna ofan á í vinsældum enda komu út á næstu tveimur árum átta bækur í bókaflokknum og festu þá í sessi, á sama tíma féllu skrýplarnir smám saman í gleymsku. Strumparnir lifðu góðu lífi og teiknimyndir fyrir sjónvarp komu fram á sjónarsviðið árið 1981 og bárust auðvitað fljótlega hingað til lands en þær fóru hér í útleigu á myndbandaleigum og nutu mikillar hylli, síðar tók Stöð 2 þættina til sýninga og hafa þeir verið þar á dagskrá meira og minna síðan. Það var Laddi (Þórhallur Sigurðsson) bróðir Haraldar sem var fenginn til að talsetja efnið og talaði hann fyrir alla strumpana og gerði það óaðfinnanlega þannig að sumir geta ekki hugsað sér strumpana öðruvísi en að Laddi tali fyrir þá. Reyndar komust strumparnir á síður dagblaðanna árið 1992 þegar það uppgötvaðist að svæsið klámefni var að finna á strumpaspólum (aftast á spólunum að strumpaþáttunum loknum) sem voru í dreifingu á myndbandaleigum, og þótti málið svo alvarlegt að neytendasamtökin lögðu fram kæru á hendur Steina sem annaðist útgáfu efnisins, Steinar bentu hins vegar á Myndform sem sá um yfirfærslu efnisins yfir á spólurnar. Sagan segir reyndar að eftirspurn (fullorðinna) eftir strumpunum hefði aukist mjög á myndbandaleigunum í kjölfarið.

Haustið 1985 sáu Steinar sér leik á borði og gáfu út fyrstu strumpaplötuna á Íslandi, það var jólaplatan Strumparnir bjóða gleðileg jól. Tónlistin var flutt af hollenskum hljóðfæraleikurum undir stjórn Ferry Wiennke og það var auðvitað enginn annar en Laddi sem söng allar raddir á plötunni en Jónatan Garðarsson sá um að snara textunum yfir á íslensku, öllum nema einum reyndar því lokalag plötunnar var Heims um ból – sem einhverjum þætti e.t.v. missa hátíðleikann í meðförum strumpanna. Platan seldist prýðilega og fór fljótlega í gullsölu.

Strumparnir

Jólaplatan hafði verið gefin út á vínyl (líklega kassettu einnig) árið 1985 og árið 1994 var komið að því að gefa hana út á geisladiskaformi, sú útgáfa var að mestu leyti sú sama og fyrri útgáfan en einu lagi hafði verið skeytt við, laginu Hátíð í Strumpabæ sem áður hafði komið út á plötu Eddu Heiðrúnar Backman – Barnajól, íslenskir hljóðfæraleikarar léku í því lagi undir söng Ladda og Eddu Heiðrúnar.

Og á næstu árum skall á eins konar strumpaæði. Árið 1995 var komið að því að platan um Harald í Skrýplalandi var endurgerð en að þessu sinni var Laddi bróðir Halla hafður með, lögin voru sungin upp á nýtt með „strumpatextum“ af Ladda og platan fékk titilinn Halli og Laddi í Strumpalandi.

1996 kom út ný strumpaplata (Strumpastuð) en nú var farin sú leið að taka fyrir vinsæl popplög og gera við þau strumpatexta. Að þessu sinni var það Jónas Friðrik Guðnason sem annaðist textagerðina og hljóðfæraleikurinn kom tilbúinn frá Noregi fyrir utan lagið Makarena sem Máni Svavarsson sá um að spila inn. Makarena varð nokkuð vinsælt en þarna var einnig m.a. að finna lög eins og Strumpareif (No limit), Strump með mér (Staying alive) og Strumpaparadís (Gangsta‘s paradise). Laddi var hér fjarri öllum söng en þeir Sniglabandsliðar Björgvin Ploder og Einar Rúnarsson ásamt Evu Ásrúnu Albertsdóttur (Strympu) sáu um sönginn. Þessi plata kom út aðeins tveimur vikum fyrir jólin 1996 en náði þó að seljast í um tíu þúsund eintökum áður en árið var liðið og alls í þrettán þúsund eintökum, varð þar með söluhæsta plata ársins.

Strumpastuð 2 kom út næst, sumarið 1997. Aftur var róið á svipuð mið með vinsælum lögum sem norskir spilarar sáu um hljóðfæraleik undir stjórn Party Peller en íslensku lögin voru þrjú að þessu sinni (leikin af Mána Svavarssyni), Strumpadiskó (Diskó friskó), Geimstrumparnir (Marsbúa cha cha cha) og Brettastrumpur (Krókurinn) sem urðu meðal vinsælustu laganna sem Björgvin, Einar og Eva Ásrún sungu en Jónas Friðrik sá um textana að mestu leyti sem fyrr.  Fyrir jólin 1997 kom svo út önnur jólaplata, Jól í Strumpalandi en hún var að einhverjum ástæðum endurútgefin ári síðar. Þar var m.a. að finna Jólahjól í bland við erlend jólalög en söngvarar voru nú nokkuð fleiri en áður, til viðbótar við þau Einar, Björgvin og Evu Ásrúnu sungu einnig á plötunni Vilhjálmur Goði Friðriksson, Þorvaldur Bjarni Þorvaldsson (sem hafði yfirumsjón með verkefninu) og Nick Cathcart-Jones upptökustjóri. Sumir textanna voru upprunalegir en Eiður Arnarsson og Arnar Matthíasson sömdu flesta af hinum. Plöturnar tvær, Strumpastuð 2 og Jól í Strumpalandi seldust samtals í um tíu þúsund eintökum.

Eftir þessa strumpatörn tók við nokkur pása í plötuútgáfunni en strumparnir voru áfram tíðir gestir á sjónvarpsskjám landsmanna, um aldamótin höfðu páskaeggjaframleiðendur einnig tekið upp á því að selja strumpapáskaegg en alls kyns annað strumpasælgæti hafði þá verið á boðstólum árin á undan. Tónlistarlega séð má segja að strumparnir hafi að mestu verið hvíldir næstu árin, þó má nefna að á jólasafnplötu Ladda, Jóla hvað? sem kom út haustið 2007 er að finna fimm áður útgefin jólalög með Strumpunum.

Hrekkjastrumpur

Árið 2008 var 50 ára afmæli strumpanna fagnað víða um heim og segja má að í kjölfarið hafi önnur strumpabylgja fljótlega skollið á því á næstu árum komu út nokkrar tölvuteiknaðar bíómyndir með strumpunum sem nutu vinsælda, sú fyrsta árið 2011. Ný strumpaplata leit dagsins ljós 2009, hún bar titilinn Strumpafjör og að þessu sinni voru eingöngu íslensk lög á dagskrá, vinsælustu slagararnir að þessu sinni voru Bahama og Rangur strumpur (Rangur maður) en þarna mátti einnig heyra þekkt lög eins og Strumpaball (Týnda kynslóðin), Manstu ekki eftir mér?, Farin, Strumpdóma (Sódóma) og Húsið og ég. Engar upplýsingar er að finna um hverjir léðu rödd sína strumpunum en gera má ráð fyrir að þar hafi verið á ferð hinir sömu og fyrr enda gaf Sena (áður Spor og Steinar) plötuna út. Engar upplýsingar finnast heldur um textahöfunda og hljóðfæraleikara á plötunni. Það sama má segja um plötuna Strumpastuð sem kom út árið 2013 á vegum Senu en sú plata varð sú síðasta með strumpunum (enn sem komið er að minnsta kosti), allar upplýsingar um flytjendur og höfunda eru af skornum skammti og því er óskað eftir þeim. Lagalistinn var þó með svipuðum hætti og á plötunni á undan, vinsæl íslensk lög – meðal laga á plötunni má nefna Glaðasti strumpur í heimi (Glaðasti hundur í heimi), Ég er alveg með þetta, Gordjöss, Kjartan þarf að vinna (Mamma þarf að vinna) og Lífið er yndislegt.

Þó svo að ekki hafi komið út strumpaplata síðustu árin eru strumparnir síður en svo gleymdir og á síðustu árum hefur t.d. bókaútgáfan Froskur aftur hafið útgáfu á teiknimyndasögunum um strumpana. Þá hafa nokkur strumpalaganna (einkum jólalögin) komið út á safnplötum í gegnum tíðina, t.d. Stóru barnaplötunni (2000), Pottþétt barnajól (2001), Ég hlakka svo til (2009), Barnagælur: Jólasveinar einn og átta (1996) og Barnagælur: Litlu jólin (1990).

Þá má nefna að fjölmargar hljómsveitir hafa tekið sér strumpatengd nöfn frá því að strumparnir komu fyrst fram á sjónarsviðið, hér má nefna sveitir eins og Æstistrumpur, Prumpustrumpar, Strumparnir, Stæltir strumpar, Svartir strumpar og Strúna og strumparnir. Einnig má nefna alls kyns hópa og félög s.s. tipphópa, fótboltalið, ungliðasveitir björgunarsveita og bridge hópa svo dæmi séu nefnd.

Efni á plötum

Sjá einnig (Skrýplarnir)