Bless (1988-91)

Bless í upphafi

Nýbylgjusveitin Bless var ein þeirra sem reyndu fyrir sér erlendis í kringum 1990 en sveitin sendi frá sér tvær plötur á þeim þremur árum sem hún starfaði.

Hægt er að beintengja sögu Bless við sögu S.h.draums og segja mætti jafnvel að um sömu sveit væri að ræða. S.h.draumur hafði verið skipaður þeim Gunnari L. Hjálmarssyni bassaleikara (Dr. Gunna), Birgi Baldurssyni trommara og Steingrími Birgissyni gítarleikari og verið starfandi í ríflega sex ár þegar Steingrímur ákvað að hætta í sveitinni haustið 1988. Sveitin hafði þá nýverið sent frá sér fjögurra laga plötuna Bless og þeir Birgir og Gunnar ákváðu að halda samstarfinu áfram við þriðja mann og tóku einmitt upp nafnið Bless. Þriðji maðurinn var Ari Eldon sem þá var bassaleikari Sogbletta en Gunnar færði sig yfir á gítarinn og sá um sönghlutverkið rétt reyndar eins og hann hafði gert í S.h.draumi.

Það kom reyndar Bless í hlut að fylgja plötu hinnar sálugu S.h.draumi eftir en tríóið hélt sína fyrstu tónleika í desember 1988 sem þá um leið voru útgáfutónleikar plötunnar. Í kjölfarið lék sveitin á fjölda tónleika á höfuðborgarsvæðinu og um vorið 1989 spurðist út að þeir félagar væru farnir að vinna að plötu sem koma ætti út fyrir jólin á vegum útgáfufyrirtækisins Smekkleysu.

Á sviði

Síðsumars fór sveitin svo í fræga tónleikaferð á vegum útgáfunnar ásamt fleiri sveitum sem voru í útrásarhugleiðingum, s.s. Ham, Sykurmolunum og Risaeðlunni en túrinn var liður í markaðsátaki Smekkleysu, World domination or death, safnplata kom síðar út undir sama titli þar sem Bless var meðal fulltrúa. Sveitin hafði þá gert samning við Bad taste sem var útibú Smekkleysu í Bandaríkjunum, sem ásamt útgáfu- og dreifingaraðilanum Rough trade átti að greiða leið hennar vestan hafs.

Platan Melting kom síðan út hér heima fyrir jólin 1989 og hafði að geyma sjö lög sem tekin höfðu verið upp í tveimur hollum í sitt hvoru hljóðverinu, lögin og textarnir voru öll eftir Gunnar. Melting fékk þokkalega dóma í Þjóðviljanum og mjög góða í Morgunblaðinu og tímaritinu Þjóðlífi.

Bless starfaði áfram, lék oft á tónleikum og naut nokkurrar hylli en vakti fyrst og fremst athygli hér heima fyrir að vekja athygli erlendis, sveitin var sem fyrr segir hluti af markaðsátaki Smekkleysu vestan hafs. Einhverjir brestir virðast hafa verið komnir í samstarfið því um sumarið (1990) auglýstu þeir félagar eftir nýjum trommara. Birgir trommari var þó áfram um tíma í bandinu en því bættist liðsauki um það leyti þegar annar gítarleikari bættist í sveitina, Skagamaðurinn Pétur H. Þórðarson sem þá hafði leikið með Óþekktum andlitum og fleiri sveitum.

Bless-liðar voru þarna farnir að vinna stóra plötu með upptökustjóranum Þór Eldon, bróður Ara, en hún hlaut nafnið Gums. Þrettán lög fóru á plötuna en aukalagi var bætt við geisladiska- og kassettuútgáfu hennar. Nokkrir kunnir Smekkleysutengdir gestir komu við sögu á plötunni, þar bar hæst Björk Guðmundsdóttur en einnig má nefna Óttarr Proppé, Möggu Stínu og Eyþór Arnalds.

Bless 1990

Gums kom út í september á vegum Rough trade í Bandaríkjunum og í kjölfarið fór sveitin í sinn annan Ameríkutúr en í þetta sinn var einnig spilað í Kanada, alls um þrjátíu konsertar á um fimm vikum. Dráttur varð á að platan kæmi út heima á Íslandi og reyndar birtist hún ekki hér fyrr en eftir áramótin 1990-91, ástæðan var gjaldþrot Rough trade útgáfunnar en samhliða því lenti Smekkleysa í fjárhagsörðugleikum. Þar með var draumur Bless um velgengni vestan hafs fyrir bí og fimm vikna túrinn varð í raun tilgangslaus. Það var líklega eftir þann túr sem Gunnar sagðist síðar í blaðaviðtali hafa bætt á sig tíu kílóum af eintómum leiðindum. Platan fékk hér heima ágæta dóma í tímaritinu Þjóðlífi og ágæta í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu.

Eðlilega fóru fréttirnar af Rough trade ekki vel í meðlimi Bless og í janúar sagði Birgir trommari skilið við sveitina og gekk í Sálina hans Jóns míns og Mannakorn, í kjölfarið hætti Ari gítarleikari einnig. Við þessar hræringar færði Gunnar sig yfir á bassann en þeir Pétur gítarleikari fengu annan Skagamann, Loga Guðmundsson trommuleikara til liðs við sig þannig að sveitin var nú aftur orðið tríó.

Þannig skipuð fór sveitin í hljóðver og tók upp efni sem síðar fór á safnplötuna Oz-Ice E.P. (1993) sem hafði að geyma lög með Bless, Daisy hill puppy farm og tveimur áströlskum rokksveitum. Einnig kom út lag með Bless þannig skipaðri á safnplötunni Úr ýmsum áttum (1991). Annars kom út efni með sveitinni á safnplötunum/snældunum Snarl III: Þetta er besta spólan sem ég á! (1991), Techernobilly (ártal óþekkt), Alltaf sama svínið (2002) og Lobster or fame (2003).

Lítið fór fyrir Bless næstu mánuðina á tónleikasviðinu og þar var ekki fyrr en um vorið, í maí 1991 sem hún birtist. Þeir félagar voru nokkuð áberandi um sumarið, léku í Húnaveri um verslunarmannahelgina, skömmu síðar á Rykkrokk tónleikunum og um haustið á tónleikum með finnstu sveitinni 22 Pistepirkko sem lék á nokkrum tónleikum hér á landi. Í framhaldi af því íslensk/finnska samstarfi fékk Gunnar útgáfusamning í Finnlandi og herjaði þar næstu misserin sem sólóisti.

En þar með lauk sögu Bless sem þá hafði smám saman fjarað undan eftir útrásarvelgengni sem var greinilega aldrei ætlað að verða. Gunnar stofnaði ekki löngu síðar hljómsveitina Unun sem gerði það gott, Pétur lék með nokkrum rokksveitum í kjölfarið en Logi hefur ekki verið áberandi í íslenskri tónlist.

Efni á plötum