Skært lúðrar hljóma [annað] (1997)

Árið 1997 stóð útgáfufyrirtækið Smekkleysa fyrir útgáfu átta platna í útgáfuröð sem það kallaði Skært lúðrar hljómar, en þar gafst nokkrum ungum og efnilegum hljómsveitum og tónlistarmönnum í neðanjarðargeiranum kostur á að koma efni sínu á framfæri. Þeir voru eftirfarandi: Andhéri, Á túr, Bag of Joys, Berglind Ágústsdóttir, Kvartett Ó. Jónsson & Grjóni, PPPönk, Sigur rós og Soðin fiðla.

Plöturnar, sem voru nokkuð misjafnar að lengd – allt frá því að teljast smáskífur og upp í breiðskífur, komu út með mánaðar millibili í tveimur skömmtum um haustið 1997 og voru eins konar útgáfutónleikar með flytjendunum haldnir í Leikhúskjallaranum af því tilefni.

Framtakið þótti heppnast vel og kom ýmsu ungu tónlistarfólki á framfæri, sögu Sigur rósar þekkja t.d. flestir og í mörgum þessara sveita var tónlistarfólk sem gerði það gott síðar með öðrum sveitum.