Bag of joys (1992-97)

Bag of joys

Bag of joys

Breiðholtssveitin Bag of joys var stofnuð haustið 1992 (á einhverju djammi) en byrjaði ekki að æfa fyrr en tveimur árum síðar, og kom reyndar fyrst fram opinberlega vorið 1995 eftir að fyrsta útgáfa hennar kom út en það var spólan Minnir óneitanlega á Grikkland, sem kom út í fjörtíu eintökum snemma árs.

Þó svo að spólan (sem tekin var upp í æfingahúsnæði sveitarinnar) hefði ekki farið hátt fékk hún engu að síður umfjöllun í breska tónlistartímaritinu Melody maker, sem hlýtur að teljast athyglisvert í ljósi þess að sveitin hafði aldrei spilað opinberlega. Tónlist sveitarinnar má skilgreina sem eins konar skrýtipopp.
Eitt laga spólunnar bar hinn óheppilega titil Rómantík í Súðavík en um þetta leyti höfðu snjóflóð fallið á þorpið og því þótti óhjákvæmilegt að breyta nafninu á coverinu, og hét lagið Rómantík í Keflavík þegar hún kom út.

Upphaflegir meðlimir Bag of joys voru þeir Sighvatur Ómar Kristinsson söngvari (Músíkvatur), Gústaf Bergmann Einarsson hljómborðs- og bassaleikari, Unnar Bjarni Arnalds bassa- og hljómborðsleikari og Þorsteinn Bjarnason hljómborðsleikari en sá síðarnefndi hætti fljótlega eftir útgáfu spólunnar og var ekki með á upptökum fyrir plötuna Nú á ég vermandi vini sem kom út um haustið 1995.

Nú á ég vermandi vini var sjö tommu sex laga vínylplata, gefin út með þremur mismunandi plötuumslögum, og vakti nógu mikla athygli til að menn fóru að gefa sveitinni auga. Í kjölfarið bættist söngkona í hópinn, Lena Viderø, en hún var unnusta Bigga í Maus (Birgis Arnar Steinarssonar) sem fenginn var til að vinna næstu plötu sveitarinnar sem Smekkleysa hafði nú ákveðið að gefa út í útgáfuröðinni Skært lúðrar hljóma.

Platan hlaut titilinn Eins og ég var motta, sem var fullkomlega eðlilegur titill miðað við hina tvo á undan, en því miður lifði Bag of joys útgáfuna varla af, hún var að hætta um þetta leyti og þegar útgáfutónleikarnir voru haldnir um haustið var sveitin í raun alveg hætt störfum. Platan var átta laga og fékk sæmilega dóma í Morgunblaðinu.

Sögu Bag of joys var þó ekki alveg lokið því sveitin kom saman á nýjan leik sumarið 2001 við mikinn fögnuð aðdáenda hennar. En síðan hefur ekkert spurst til hennar.

Efni á plötum