Björgvin Guðmundsson (1891-1961)

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson

Björgvin Guðmundsson tónskáld var einn þeirra tónlistarmanna sem þurfti að berjast alla ævi fyrir viðurkenningu starfs síns en hlaut hana þó að lokum, eftir áratuga baráttu.

Björgvin fæddist við Vopnafjörð (f. 1891) og fékk snemma áhuga á tónlist, aðstæður heima fyrir hjálpuðu lítt til við að virkja þann áhuga en þó gat niðursetningur (eldri kona) á heimili hans séð til þess að keypt var orgel frá Svíþjóð, að hluta til fyrir sparifé hennar, og varð það til að hann menntaði sig að hluta til sjálfur í þeim fræðum, enn fremur var hann í kór á Vopnafirði og naut góðs af því.

Björgvin hóf ungur að semja sönglög og sálma og lýsti því yfir í heyranda hljóði að hann ætlaði að verða tónskáld, hann varð af þeim orsökum skotspónn sumra sveitunga sinna en mun lítt hafa tekið það nærri sér.

Björgvin fluttist með fjölskyldu sinni til nýlendu Íslendinga í Winnipeg í Kanada um tvítugt, nam tónfræði og píanóleik að einhverju marki og kynntist nú tónlist fyrst fyrir alvöru, þ.m.t. flóknari tónverkum. Hann varð fljótlega öflugur í tónlistarlífi Íslendinganna, söng í kórum og annaðist kórstjórn, m.a. í tímabundnum verkefnum fyrir Samkór Íslendinga (The Icelandic choral society) o.fl. í tengslum við Íslendingahátíðir. Fyrir þau verk hlaut hann viðurkenningu samlanda sinna sem styrktu hann til náms við Royal college of music í London en þangað hélt hann ásamt eiginkonu sinni haustið 1926, þá hafði oratoría eftir hann verið flutt um vorið í Winnipeg við góðan orðstír. Björgvin átti sér þó öfundarmenn meðal Íslendinganna í Kanada og svo virðist sem þeir hafi alltaf verið til staðar hver svo sem ástæðan var.

Þegar Björgvin kom aftur frá London eftir liðlega tveggja ára námsdvöl var kantata eftir hann flutt í Winnipeg við góða dóma, kantötu þessa hafði hann samið við verðlaunaljóð Davíðs Stefánssonar frá Fagraskógi í tilefni af Alþingishátíðinni 1930, og sent til samkeppni af sama tilefni. Kantötuna hafði hann fengið senda til baka frá Íslandi án þess, af því er virtist, að dómnefndin hefði litið á hana.

Haustið 1931 kom Björgvin heim til Íslands og hóf að kenna við barnaskólann og Menntaskólann á Akureyri. Hann varð strax virkur í tónlistarlífinu nyrðra og var t.d. organisti við Akureyrarkirkju (hina eldri) um tíma, stærsta verkefni hans var hins vegar að stofna blandaðan kór á Akureyri, þann fyrsta sinnar tegundar í bænum. Hann hlaut fljótlega nafnið Kantötukór Akureyrar og hafði á stefnuskrá sinni að flytja íslensk verk, einkum verk Björgvins sjálfs. Það var umdeilanlegt og átti m.a. sinn þátt í að nokkur blaðaskrif urðu um störf Björgvins. Samhliða þessu stýrði hann Piltakór Menntaskólans á Akureyri um tíma. Kantötukórnum stýrði Björgvin allt til 1955 og flutti verk hans, þ.á.m. óratoríuna Strengleika sem hann samdi við ljóð Guðmundar Guðmundssonar skólaskálds, einnig fór kórinn í frægðarför til Noregs þar sem hann hlaut annað sætið í flokki þjóðlaga.

Fljótlega eftir Noregsförina hætti Björgvin sem kórstjóri, hann ferðaðist töluvert innanlands og utan og fór m.a. á „heimaslóðir“ í Kanada þar sem honum var tekið með kostum og kynjum en segja má að hann hafi þá fyrst fengið þá almennu viðurkenningu sem hann átti skilið. Björgvin lést snemma árs 1961 eftir stutt veikindi.

Björgvin skildi eftir sig nokkurn fjölda af sönglögum, nokkrar af fyrstu íslensku óratoríunum og kantötur, sem flutt hafa verið við ýmis tækifæri. Meðal sönglaga hans má nefna Heyrið vella á heiðum hveri, sem síðar varð morgunsöngur við MR og Í rökkurró svo dæmi séu tekin. Lög hans hafa komið út í ýmsum söngheftum, m.a. undir titlinum Tónhendur en einnig kom út sönghefti á Íslendingaslóðum í Winnipeg. Björgvin skrifaði einnig leikrit sem naut nokkurra vinsælda og sett var á svið á Akureyri og víðar, aukinheldur sem fyrri hluti ævisögu hans, Minningar kom út 1950. Enn fremur kom út 2011 ævisaga Björgvins, Ferill til frama, skráð af Hauki Ágústssyni.

Verk Björgvins hafa lítt verið gefin út en þó kom út á vegum Smekkleysu platan Hljómblik árið 2004, þar sem nokkrir af ástsælustu söngvurum þjóðarinnar heiðruðu minningu hans, einnig hafði Svavar Gests gefið út plötu 1975 með Karlakór Reykjavíkur sem hafði að geyma lög Björgvins og Emils Thoroddsen, 1983 kom einnig út plata með orgelleik Páls Kr. Pálssonar sem hafði m.a. að geyma verk hans.

Efni á plötum