Sólskinskórinn [1] (1973-75)

Sólskinskórinn

Margir þekkja Sólskinskórinn svokallaða enda naut hann fádæma vinsælda í kringum miðjan áttunda áratug síðustu aldar þegar hann kom við sögu á tveimur plötum og söng þá lög eins og Sól, sól skín á mig, Kisu tangó og Syngjandi hér, syngjandi þar. Kórinn var þó aldrei starfandi sem eiginlegur kór.

Það mun hafa verið að frumkvæði danskennarans Hermanns Ragnars Stefánssonar að plata kom út með Sólskinskórnum en hann fékk þá Svavar Gests hljómplötuútgefanda og Magnús Pétursson söngkennara og píanóleikara til samstarfs við sig í því skyni að gefa út nokkur lög sem nota mætti við danskennslu. Magnús stjórnaði þá Kór Melaskóla og valdi nokkrar stúlkur úr honum til að mynda hinn svokallaða Sólskinskór sem svo söng fjögur lög sem komu út á plötu vorið 1973 við undirleik Magnúsar og hljómsveitar sem hann stjórnaði og útsetti fyrir.

Sólskinskórinn var því aðeins úrval stúlkna úr Melaskólakórnum og kom því líklega aldrei fram opinberlega nema fyrir sjónvarpsupptökur eða eitthvað slíkt. Eitt andlit kórsins var öllu þekktara en önnur en það var Hanna Valdís Guðmundsdóttir sem þá nýverið hafði m.a. sungið lagið um Línu langsokk inn á plötu. Flest laganna á smáskífu Sólskinskórsins nutu vinsælda en tvö þeirra, Sól, sól skín á mig og Kisutangó hafa lifað ágætu lífi fram á okkar daga enda hafa þau komið ótal sinnum út á safnplötum.

Tveimur árum síðar kom svo út önnur plata þar sem Sólskinskórinn kom við sögu en áhorfendur Stundarinnar okkar höfðu fengið smjörþefinn af því samstarfi haustið 1974, það var platan Ný barnaljóð Jónasar Árnasonar með Þremur á palli sem naut aðstoðar kórsins en sú plata varð einnig afar vinsæl þegar hún kom út vorið 1975. Á þeirri plötu er m.a. að finna lögin Syngjandi hér – syngjandi þar, Kálfurinn á Kálfagilsá, Langi-Mangi Svanga-Mangason og Sumar í sveitinni okkar en alls voru tólf lög á plötunni.

Sólskinskórinn kom ekki frekar við sögu á plötum.

Efni á plötum