Sóldögg (1994-)

Sóldögg 1995

Hljómsveitin Sóldögg var með þekktustu ballhljómsveitum Íslands um aldamót og telst til aldamótahljómsveitanna svonefndu. Sveitin sendi frá sér ógrynni vinsælla laga á sínum tíma, var alveg við toppinn en náði þangað þó aldrei alveg og má e.t.v. um kenna að hún markaði sér aldrei hreina stefnu, var á mörkum þess að vera hreinræktuð sveitaballapoppsveit annars vegar og rokksveit jafnvel eilítið tilraunakennd hins vegar. Þegar sveitin hafði loks tekið skrefið í átt að léttpoppinu var það of seint.

Upphaf Sóldaggar er nokkuð loðið, sveitin var stofnuð upp úr blússveitinni Jökulsveitinni og kom fyrst fram undir Sóldaggarnafninu vorið 1994 og lék þá blöndu blús- og sálartónlistar. Ásgeir J. Ásgeirsson gítarleikari, Baldvin A. B. Aalen trommuleikari, Bergsveinn Arilíusson söngvari og Georg Bjarnason bassaleikari höfðu verið meðlimir Jökulsveitarinnar undir lokin og svo virðist sem að Bergsveinn, Baldvin og Georg hafi verið stofnmeðlimir Sóldaggar og eitthvað komu þeir bræður, Örlygur og Bergþór Smári nálægt hópnum án þess að hafa verið meðlimir sveitarinnr, Ásgeir hafi svo komið inn í hópinn síðar. Bergsveinn var sá eini sem þá hafði fengið einhverja athygli, hafði tekið þátt í uppfærslu Fjölbrautaskólans í Breiðholti á The Commitments og komið við sögu á safnplötunni Kærleikur þar sem ungir og efnilegir söngvarar reyndu sig við lagasmíðar hippaáranna, hinir meðlimir sveitarinnar voru hins vegar að stíga fyrstu skref sín á frægðarbrautinni. Nafn sveitarinnar mun vera komið frá Bergsveini.

Sóldögg spilaði töluvert sumarið 1994, fyrst um sinn aðallega á Blúsbarnum en fljótlega einnig á Gauknum og svo á landsbyggðinni um haustið, m.a. í Vestmannaeyjum en Eyjarnar áttu í raun eftir að verða hálfgerður heimavöllur sveitarinnar, svo oft lék sveitin þar. Sveitin lagði blúsinn og soultónlistina smám saman til hliðar og hefðbundnara prógramm tók við, tónlist sveitarinnar var þó nokkuð sér á báti og átti rödd Bergsveins stóran þátt í því en hún var rám og rokkuð (með örlítið af Jack Daniel‘s, eins og hann sagði síðar sjálfur í viðtali) og þannig hafði sveitin nokkra sérstöðu.

Sóldögg 1996

Sóldögg hélst framan af illa á bassaleikurum, Ólafur Kristjánsson hafði tekið við bassanum af Georgi en vorið 1995 hætti hann í sveitinni og kom Eiður Alfreðsson inn í hans stað, þá voru þeir Ásgeir gítarleikari og Stefán H. Henrýsson hljómborðsleikari komnir inn í sveitina og svo gott sem komin endanleg mynd á hana. Sveitin lék töluvert á landsbyggðinni um sumarið og oft í Eyjum en yfir vetrartímann var hún jafnframt farin að leika nokkuð á skólaböllum. Fljótlega fóru þeir Sóldaggar-liðar að vinna að frumsömdu efni samhliða spilamennsku sem færðist mjög í aukana, og snemma árs 1996 sendi sveitin frá sér lagið Loft sem þá fór í útvarpsspilun og vakti nokkra athygli. Í júní kom svo út fimm laga plata sem bar nafnið Klám og vakti einnig nokkra eftirtekt, líklega þó mest fyrir að lítið annað var í gangi í íslenskri plötuútgáfu um það leyti. Lögin voru öll unnin í sameiningu og þótti platan nokkuð blönduð að efni enda hafði Sóldögg ekki skapað sér sérstakan hljóm, hún hlaut þó þokkalega dóma í Degi og ágæta í DV og Morgunblaðinu.

Töluverð lægð hafði verið í íslensku poppi og sveitaballahefðinni um þetta leyti, Sálin og SSSól höfðu lítið látið fara fyrir sér, Skítamórall var að byrja að láta að sér kveða sem og Greifarnir eftir langt hlé og Vinir vors og blóma voru í þann veginn að hætta störfum þannig að Sóldögg naut góðs af því, lék töluvert á dansleikjum um sumarið og m.a. á Vopnaskaki um verslunarmannahelgina. Sveitin skapaði sér því töluvert nafn það árið og að hún skuli hafa verið í Njálsbúð á öðrum degi jóla 1996 segir nokkuð um stöðu hennar.

Sóldögg

Á árinu 1997 jók sveitin enn við spilamennskuna, framan af ári mikið til á höfuðborgarsvæðinu en þegar páskar og vor nálguðust færðu þeir félagar sig aftur meira út á landsbyggðina. Um vorið sendi Sóldögg frá sér nýtt lag í spilun sem varð fyrsti stórsmellur sveitarinnar, það hét Friður og kom út á Pottþétt safnplötu. Með það í farteskinu fór sveitin á sumartúr um landið og fór mjög víða, með í för var nýr bassaleikari – Jón Ómar Erlingsson sem varð þar með fjórði og síðasti bassaleikari sveitarinnar. Sveitin spilaði miklu meira en áður og nutu velgengni lagsins og um verslunarmannahelgina var sveitin í Galtalæk og á Siglufirði.

Þrátt fyrir að mikið væri að gera hjá Sóldögg gáfu þeir félagar sér tíma til að hljóðrita nýja plötu sem tilkynnt var að væri væntanleg um haustið, um mitt sumar hafði svo komið út nýtt lag á safnplötu (Bandalögum 7) og varð það einnig mjög vinsælt, lagið hét Leysist upp og þar með hafði Sóldögg hitt á einhverja tónlistarblöndu sem féll í góðan jarðveg, með ráma rödd Bergsveins sem aðaleinkenni en var þó ekki beinlínis léttpopp að hætti sveitaballahljómsveita. Myndbönd voru gerð við lögin tvö sem ýttu undir vinsældirnar.

Platan, sem hlaut titilinn Breyt‘um lit kom út um haustið á vegum Skífunnar og þá hafði sveitin gert þriggja platna samning við útgáfufyrirtækið. Á henni var að finna tíu lög og má segja að fjögur þeirra hafi notið nokkurra vinsælda, áður eru nefnd lögin sem komu út um sumarið (Friður og Leysist upp) en einnig urðu titillagið Breyti um lit og Ekki neitt vinsæl. Platan hlaut jafnframt ágæta dóma í Morgunblaðinu og Degi og hlaut almennt verðskuldaða athygli í kjölfarið, m.a. nokkrar tilnefningar til Íslensku tónlistarverðlaunanna, Breyt‘um lit seldist mjög vel og varð söluhæsta plata sveitarinnar. Þar var Ásgeir mest áberandi lagasmiða en Baldvin kom einnig sterkur inn, þá áttu Jón Ómar og Stefán einnig sitt hvort lagið þannig að sveitin var augljóslega nokkuð vel stödd hvað lagasmiði varðaði. Bergsveinn átti hins vegar flesta textana.

Sóldögg 1998

Á nýju ári (1998) hafði Sóldögg örlítið hægar um sig fyrstu vikurnar eftir mikla törn árið á undan, sveitin lék þó töluvert sem áður og fór m.a. erlendis til að leika á þorrablótum en hún gerði það í nokkur skipti meðan hún starfaði. Sveitin hafði fest sig nokkuð í sessi sem ein af vinsælustu hljómsveitum landsins og því var eðlilegt að hún ætti tvö lög á sumarsafnplötunni Svona er sumarið ´98 sem kom út um vorið, það voru lögin Fínt lag og Yfir allt eftir Ásgeir. Fyrrnefnda lagið varð einn af sumarsmellunum og hitt vakti einnig athygli og mun hafa verið mest spilaða lagið á Rás 2 það árið.

Sumarið 1998 varð hefðbundið og einkenndist af mikilli keyrslu enda var farið landshorna á milli og það jafnvel innan sömu helgarinnar, Sóldögg lék á Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum og á Siglufirði um verslunarmannahelgina og til marks um vinsældir sveitarinnar í Eyjum má nefna að síðsumars lék sveitin á svokölluðu Keikó-balli þegar samnefndur háhyrningur kom fljúgandi yfir hafið eins og frægt er. Sóldögg mun hafa leikið yfir hundrað sinnum þetta ár og það mun hafa gerst oftar hjá sveitinni að hún ryfi hundrað gigga múrinn. Um haustið fór lagið Villtur í spilun og naut töluverðra vinsælda

Sóldögg slakaði lítið á við spilamennskuna þrátt fyrir að vinna samhliða henni að plötu, sú afurð kom svo út um haustið undir nafninu Sóldögg. Fleiri lög urðu vinsæl í kjölfarið, Lifi áfram og Geng í hringi bættust í hópinn en þrátt fyrir það að helmingur laganna tíu nytu vinsælda voru gagnrýnendur ekki eins hrifnir og af plötunni á undan, platan fékk reyndar ágæta dóma í Degi og þokkalega í Morgunblaðinu en varla nema sæmilega í DV, Sóldögg þótti þannig tvístígandi og menn höfðu á orði að sveitin vissi ekki hvort þeir ætluðu að gera úthugsað rokk eða létt popp.

Sóldögg 2000

Fyrir jólin 1998 átti Sóldögg stórsmell á öðrum vettvangi en þá var gefin út minningarplata um Vilhjálm Vilhjálmsson undir nafninu Söknuður en 20 ár voru þá liðin frá því að hinn ástsæli söngvari lést bílslysi. Á þeirri plötu flutti sveitin Bíddu pabbi en þeir höfðu þá haft lagið á prógrammi sínu um tíma. Lagið sló í gegn í meðförum Sóldaggar og breikkaði um leið aldurshóp þeirra sem hlustuðu á sveitina.

Á nýju ári gekk allt sinn vanagang, Sóldögg spilaði mikið og undirbjó útgáfu nýs efni. Að sumu leyti var spilamennskan tvíþætt, á ballprógrammi sveitarinnar var ekki nema lítill hluti efnisins frumsamið – þ.e. allra vinsælustu lög sveitarinnar en þegar þeir félagar léku á Gauknum og þess konar stöðum var meiri tónleikakeimur af henni og þar fengu frumsömdu lögin að njóta sín í mun meiri mæli og jafnvel órafmagnað, þannig voru lögin þeirra nokkuð þyngri til að hægt væri að bjóða almennt upp á þau á sveitaböllum.

Um vorið 1999 urðu gítarleikaraskipti í Sóldögg þegar Ásgeir, aðal lagahöfundur sveitarinnar hvarf á brott til Hollands í nám en sæti hans tók Gunnar Þór Jónsson sem þá hafði getið sér orð sem gítarleikari Spur. Um það leyti var talið í enn einn túrinn en sveitin lék einnig m.a. á risa afmælistónleikum FM 957 í Faxaskála þar sem nokkrar íslenskar sveitir léku ásamt Republica, Garbage, Mercury rev og E-17, um verslunarmannahelgina gerði sveitin víðreist, spilaði á Halló Akureyri, Vopnaskaki og Neistaflugi. Tvö lög komu út með Sóldögg á safnplötunni Svona er sumarið ´99, Fæ aldrei frið og Bara þig, þau komu aldrei út á plötum sveitarinnar en nutu mikilla vinsælda um sumarið.

Þrátt fyrir að engin plata kæmi út með sveitinni árið 1999 var Sóldögg töluvert áberandi í tónlistinni, lögin tvö um sumarið fengu töluvert mikla spilun og um haustið kom út plata með ýmsum þekktum söngvurum og leikurum undir titlinum Jaba daba dúúú!!! – lög úr teiknimyndum en þar söng Bergsveinn tvö lög, Við eigum hvor annan að ásamt Stefáni Karli Stefánssyni og Atla Rafni Sigurðarsyni og Ég er vinur þinn með Hreimi Erni Heimissyni úr Landi og sonum. Bæði þessi lög voru mikið spiluð í útvarpi sem og lagið Ást í loftinu sem Bergsveinn söng með hljómsveitinni Pöpum.

Sóldögg

Þennan vetur 1999-2000 var Sóldögg áberandi sem endranær á ballmarkaðnum, sveitin lék víða á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðinni og þá voru Vestmannaeyjar engin undantekning. Á vordögum 2000 var enn keyrt á dreifbýlið en einnig leikið á tónlistarfestvalinu Reykjavik Music Festival, þar kynnti sveitin m.a. nýtt efni sem ráðgert var að kæmi út á plötu síðar það sama ár. Um verslunarmannahelgina var svo loks komið að því að sveitin fengi athyglina á aðal sviðinu á Þjóðhátíð en þar hafði hún ekki leikið áður þrátt fyrir alla Eyjaheimsóknirnar.

Um sumarið komu út tvö lög á safnplötum sem voru forsmekkir að því sem koma skyldi á plötunni, annars vegar lagið Hvort sem er á safnplötunni Svona er sumarið 2000 og hins vegar Hef ekki augun af þér, ábreiða af laginu Can‘t take my eyes off you sem kom út á safnplötunni Pottþétt 22 en heyrðist einnig í kvikmyndinni Íslenski draumurinn sem var frumsýnd síðsumars. Bæði lögin voru mikið spiluð í útvarpi og nutu vinsælda um sumarið. Breiðskífan kom út um haustið og hét Popp sem þótt réttnefni því hún var töluvert poppaðri en fyrri plötur Sóldaggar, þetta var jafnframt þriðja og síðasta platan í samningi sveitarinnar við Skífuna. Þrjú lög plötunnar fengu heilmikla útvarpsspilun, Hennar leiðir, Ljós og Hugsa um þig svo að helmingur laganna plötunnar líkt og venjulega nutu vinsælda, platan fékk þó fremur slaka dóma í Morgunblaðinu. Um jólin kom einnig út plata sem bar nafnið Með allt á hreinu: óður til kvikmyndar, þar sem hinar og þessar hljómsveitir spreyttu sig á lögum úr samnefndri Stuðmannamynd. Sóldögg spreytti sig þar á laginu Franskar (sósa og salat) en nokkur laganna urðu vinsæl.

Árið 2001 hélt Döggin sínu striki í spilamennsku þótt ekki væri það eins þétt og um haustið á undan, þegar nær dró vori bætti heldur í venju samkvæmt en þarna var sveitin búin að vera á nánast stanslausri ballkeyrslu síðan 1995. Um vorið var Sóldögg meðal hljómsveita sem léku á styrktartónleikum fyrir unglingadeild SÁÁ og í tengslum við það kom út safnplata sem bar heitið Popp-frelsi, þar átti sveitin lagið Ekki fara – en það hefur ekki komið út á öðrum vettvangi, ekki komu út fleiri ný lög með sveitinni. Af allri ballspilamennsku sumarsins stendur Eldborgar-hátíðin upp úr en hún var haldin á Mýrum um verslunarmannahelgina og þótti mikil sukkhátíð, sveitin lék einnig á þjóðhátíð þá sömu helgi.

Sóldögg 2015

Um haustið og veturinn var allt með sama sniði, aðallega spilað í þéttbýliskjörnunum og reyndar einnig á skólaböllum, sveitin hafði verið hluti af því sem kalla mætti síðustu sveitaballabylgjuna í kringum aldamótin og á þessum tímapunkti var sú bylgja að ná hámarki áður en dansleikjum fækkaði á nýjan leik í félagsheimilum landsins, hefðbundnum sveitaböllum fækkaði í kjölfarið mjög en vínveitingahúsin í þéttbýlinu héldu velli.

Sumarið 2002 var sveitin nokkuð í skugga yngri sveita, um vorið kom út plata sem bar heitið Eldhúspartý FM 957 þar sem Sóldög átti lögin Svört sól og Hvort sem er í órafmögnuðum útgáfum, en fyrrnefnda lagið kom einnig út rafmagnað á safnplötunni Svona er sumarið 2002 og varð síðasti stórsmellur sveitarinnar. Sveitin spilaði heilmikið um sumarið sem endranær en þegar leið á það var gefið út að þeir félagar myndu fara í pásu um haustið eftir stanslausa margra ára keyrslu. Það fór reyndar aldrei svo að sveitin færi í pásu en óneitanlega dró nokkuð úr ballspilamennsku um haustið.

Þannig spilaði Sóldögg sig smám saman út af markaðnum, var alltaf virk en tók kannski bara eitt til tvö gigg í mánuði – reyndar komst sveitin í fjölmiðla þegar nemendafélag framhaldsskóla á landsbyggðinni neitaði að greiða sveitinni umsamið gjald eftir að þeir spiluðu drukknir á skólaballi, sveitin lét hart mæta hörðu en málin voru kláruð bak við tjöldin. Á næstu árum fækkaði enn þeim skiptum sem sveitin kom fram, meðlimir sveitarinnar fóru að sinna öðrum verkefnum en sendu reyndar frá sér lag í samstarfi við hljómsveitina Á móti sól undir nafninu Á móti Sóldögg á safnplötunni Svona er sumarið 2004. Fleira spilaði inn í, meðlimir sveitarinnar gerðust fjölskyldumenn, giftu sig og eignuðust börn eins og gengur og gerist. Sveitin hætti þó aldrei alveg og spilaði nánast eitthvað á hverju ári á Players, í Vestmannaeyjum og svo á Bestu útihátíðinni árið 2012, svo nokkur dæmi séu nefnd. Ekki liggur fyrir hverjir skipuðu Sóldögg á þeim árum en fyrir liggur að Njáll Þórðarson hljómborðsleikari kom eitthvað fram með sveitinni á einhverjum tímapunkti.

Sumarið 2015 kom Sóldögg saman eftir nokkurt hlé og hélt upp á 20 ára afmæli sitt með nokkrum dansleikjum, á Spot, á Reykhólahátíð og svo á Þjóðhátíð í Eyjum ásamt fleiri aldamótahljómsveitum en segja má að þar hafi verið um eins konar endurkomumót að ræða enda sveitaböllin þá orðin svo gott sem liðin tíð, það sumar voru Bergsveinn, Jón Ómar, Baldvin og Gunnar Þór meðlimir Sóldaggar. Sóldögg var ennþá eitthvað að spila á dansleikjum haustið 2017 og er líkast til enn starfandi en eins og svo margar slíkar sveitir er hún orðin að eins konar saumaklúbbi karla sem hittist stöku sinnum til að hafa gaman.

Sóldögg hefur alltaf haft nokkra sérstöðu meðal sveitaballabandanna og víst er að sveitin höfðaði til margra sem ekkert vildu af slíkum hljómsveitum vita, þyngri lagasmíðar og rám rödd Bergsveins hafði þar heilmikið að segja – í gagnrýni um útgáfutónleika sveitarinnar sagði blaðamaður að hann hljómaði eins og engill með hæsi og þar er honum kannski best lýst.

Breiðskífurnar þrjár og fimm laga skífan eru ágætir minnisvarðar um Sóldögg, þær hafa að geyma vel á fjórða tug laga en einnig er nokkur lög til viðbótar að finna á safnplötum með sveitinni. Mörg þessara laga hafa einnig komið út á safnplötum.

Efni á plötum