Sónata [2] (1995-96)

Sónata

Hljómsveitin Sónata starfaði í kringum útgáfu plötu sem kom út haustið 1995 en sveitin var skipuð menntaskólanemum sem sumir hverjir áttu eftir að koma heilmikið við tónlistarsögu síðar.

Tildrög þess að Sónata var stofnuð voru þau að Blönduósingurinn Einar Örn Jónsson sem þá var við nám í Menntaskólanum á Akureyri vildi koma tónlist sinni á framfæri og því fékk hann til liðs við sig nokkra samnemendur sína til að stofna hljómsveit sem hlaut nafnið Sónata en hún gaf svo út plötuna Hugarflugur sem hafði að geyma þessar lagasmíðar. Einar Örn sem samdi lögin og flesta textana var hljómborðsleikari sveitarinnar en aðrir meðlimir hennar voru Gunnar Benediktsson óbóleikari og söngvari, Jón Jósep Snæbjörnsson söngvari, Theódóra Lind Þorvaldsdóttir söngkona og Anna Sigríður Þorvaldsdóttir söngkona en þær eru systur. Þorsteinn Einarsson sá um gítarleik á plötunni en var þó ekki meðlimur Sónötu en einnig kom strengjakvartettinn Silki við sögu á henni auk fleiri hljóðfæraleikara.

Þótt platan færi ekki ýkja hátt hlaut hún þokkalegar viðtökur gagnrýnenda Morgunblaðsins og DV en sveitin fylgdi Hugarflugum eitthvað eftir með spilamennsku fram á vorið 1996, mest þó norðan heiða.

Það sem einna helst vekur athygli er að hún innihélt meðlimi sem síðar urðu kunnir á ýmsum sviðum tónlistarinnar, Einar Örn og Jón Jósep m.a. með ballhljómsveitinni Í svörtum fötum, Gunnar m.a. með Skálmöld og Anna sem tónskáld og sellóleikari.

Efni á plötum