Stefán Jónsson [1] (1905-66)

Stefán Jónsson

Stefán Jónsson var kunnur rithöfundur og barnakennari sem einnig samdi fjölda þekktra texta, flestir þeirra voru ætlaðir börnum og margir þeirra hafa komið út á plötum.

Stefán fæddist árið 1905 í uppsveitum Borgarfjarðar þar sem hann ólst einnig upp. Eftir nám við Héraðsskólann á Laugarvatni lá leið hans í kennaranám og svo í Austarbæjarskólann í Reykjavík þar sem hann starfaði sem barnakennari í áratugi og varð þekktur sem slíkur. Þekktastur varð hann þó fyrir ritstörf sín en á fjórða tug bóka komu út eftir hann, mestmegnis barnabækur og nutu bækurnar um Hjalta litla mikilla vinsælda en þær voru jafnframt eitthvað þýddar á önnur tungumál. Stefán skrifaði einnig smásögur, lekrit og skáldsögur og vann við þýðingar.

Stefán samdi fjölda þekktra söngtexta sem flestir voru ætlaðir börnum en þó voru þar einnig annars konar textar. Árið 1969 kom t.a.m. út plata með Bessa Bjarnasyni leikara þar sem hann söng þekkt barnalög við texta Stefáns en platan bar titilinn Bessi Bjarnason syngur hinar góðkunnu barnavísur Stefáns Jónssonar, meðal texta sem þar er að finna má nefna Sagan af Gutta (Guttavísur), Aumingja Siggi, Aravísur, Kvæðið um kálfinn og Kiddi á Ósi en fleiri þekktir textar eru eftir hann s.s. Hvít jól og Litli trommuleikarinn sem Elly Vilhjálms og Ragnar Bjarnason sungu fyrst inn á plötu, Hvers vegna? við lag Sigfúsar Halldórssonar, Óli Skans, Systa mín, Það var einu sinni strákur og lögin úr leikritinu um Kardimommubænum en Stefán þýddi söngtextana þar. Fjölmargt tónlistarfólk hefur gert textum Stefáns skil á plötum sínum s.s. Ingibjörg Þorbergs, Erla Þorsteins, Vilhjálmur Vilhjálmsson, Sigrún Hjálmtýsdóttir og Stefán Hilmarsson svo aðeins nokkur nöfn séu nefnd.

Stefán lést vorið 1966 eftir snörp veikindi en hann var þá aðeins sextugur að aldri.

Efni á plötum