Snjólaug Anna Sigurðsson (1914-79)

Snjólaug Anna Sigurðsson

Snjólaug Sigurðsson (Snjolaug Sigurdsson) er ekki meðal þekktustu tónlistarmanna landsins en hún var Vestur-Íslendingur, fædd í Kanada og naut þar mikillar virðingar meðal Íslendingasamfélagsins vestra. Hún kom hingað til lands þrívegis í heimsókn.

Snjólaug Anna (fædd Snjólaug Anna Sigurjónsdóttir) fæddist í Árborg í Manitoba haustið 1914 og var því af fyrstu innfæddu kynslóðinni þar vestra. Tónlistarhæfileikar hennar uppgötvuðust snemma og mun hún hafa verið farin að leika á píanó jafnvel áður en hún varð altalandi. Hún nam píanó- og orgelleik auk söngfræði í Winnipeg og Toronto og svo við konunglega tónlistarskólann í London, og síðar einnig í New York.

Snjólaug Anna var áberandi í tónlistarsamfélagi Vestur-Íslendinganna, lék oft á tónleikum þar og einnig í New York þegar hún bjó þar og starfaði, hún hélt margsinnis einleikstónleika en var einnig í lítilli hljómsveit sem kom fram stundum á tónleikum.

Hún var undirleikari hjá fjölmörgum kórum og einsöngvurum og annaðist t.a.m. undirleik þegar íslenskir einsöngvarar eins og María Markan, Guðrún Á. Símonar og Eggert Stefánsson heimsóttu Íslendingaslóðirnar og héldu þar tónleika. Þá var hún um áratugar skeið organisti og söngstjóri (yngri kórs) Fyrstu lúthersku kirkjunnar í Winnipeg, og var ennfremur virk í ýmsum hljómlistar- og söngfélögum eins og segir um hana í heimildum – hún kom jafnframt oft fram í útvarpi vestra.

Snjólaug Anna

Snjólaug Anna starfaði lengi við tónlistarkennslu bæði í New York og Winnipeg og meðal annarra tónlistartengdra verkefna hennar má nefna að hún setti saman, æfði og stjórnaði blönduðum kór sem settur var saman fyrir 60 ára afmæli Íslendingabyggðarinnar árið 1935.

Snjólaug Anna kom í fyrsta sinn til Íslands haustið 1954 fertug að aldri, hélt þá eina tónleika í Gamla bíói en fór norður til að heimsækja fæðingarstaði foreldra sinna. Árið 1968 kom hún aftur hingað til lands, söng þá bæði í útvarpi og sjónvarpi og hélt tónleika á Ísafirði, og svo kom hún til Íslands í þriðja sinni ásamt stórum hópi Vestur-Íslendinga til að fagna 1100 ára landnámsafmælinu sumarið 1974, þá lék hún á tónleikum einnig.

Snjólaug Anna Sigurðsson lést árið 1979.