
Snjólaug Anna Sigurðsson
Fjögur afmælisbörn í tónlistargeiranum eru skráð hjá Glatkistunni á þessum degi:
Viðar Jónsson tónlistarmaður er sjötíu og fimm ára gamall í dag. Viðar hefur mestmegnis verið viðloðandi pöbbabransann í gegnum tíðina, hann hefur leikið og sungið með fjölda sveita til langs tíma auk þess að starfa eins síns liðs. Meðal sveita sem Viðar starfaði með má nefna Garða og Gosa, Plöntuna, Áhöfnina á Halastjörnunni, Kúrekana, Duo spez og Geisla. Um miðjan áttunda áratuginn sendi hann frá sér lagið Sjóarinn síkáti sem naut nokkurra vinsælda en Viðar hefur jafnframt sent frá sér nokkrar plötur, einn og í samstarfi við aðra.
Daði Kolbeinsson óbóleikari fagnar í dag sjötíu og tveggja ára afmæli sínu. Daði heitir í raun Duncan Campbell og flutti hingað til lands frá Skotlandi tvítugur að aldri, hann hefur leikið með Sinfóníuhljómsveit Íslands, Kammersveit Reykjavíkur og fjölmörgum öðrum kammersveitum og öðrum sveitum en fengist einnig við tónlistarkennslu. Þá hefur hann leikið inn á ótal hljómplötur um ævina.
Ríkharður H. Friðriksson gítarleikari er sextíu og tveggja ára gamall í dag. Ríkharð þekkja margir sem einn af gítarleikurum Fræbbblanna en hann hefur einnig starfaði með nokkrum öðrum hljómsveitum, hér má t.a.m. nefna sveitir eins og Október, Snillingana og Icelandi sound company.
Þá átti Snjólaug Anna Sigurðsson (Snjólaug Anna Sigurðardóttir) söngkona, organisti, kórstjóri og píanóleikari einnig afmæli á þessum degi. Hún var fædd árið 1914 í Kanada í Íslendingasamfélaginu og var áberandi í því samfélagi við tónlistartengd verkefni, hún kom í heimsókn til Íslands þrívegis og hélt hér tónleika. Snjólaug Anna lést árið 1979,
Vissir þú að Stuðmennirnir Egill Ólafsson og Jakob Frímann Magnússon sungu í fyrsta skipti saman á plötunni Róbert bangsi haustið 1974?