Viðar Jónsson (1947-)

Viðar Jónsson

Tónlistarmaðurinn Viðar Jónsson hefur komið víða við í tónlistarbransanum þótt ekki hafi hann verið áberandi í vinsældapoppinu, hann var þó allþekktur í pöbbabransanum og á einnig að baki nokkrar útgefnar plötur.

Viðar (f. 1947) á rætur sínar að rekja í Kópavoginn og þar lék hann með ýmsum hljómsveitum á unglingsárum sínum. Hann mun hafa byrjað að fikta við gítar fjórtán, fimmtán ára gamall og fór í raun í gegnum alla flóru sjöunda áratugarins með sveitum sínum, fyrst með gítarsveitum og frumbítlapoppsveitum eins og Geislum og Garðari og Gosum, þá komu Ernir sem mun hafa verið hrein bítlasveit og síðan Plantan sem var meira í ætt hipparokks. Viðar lék á gítar og söng einnig eitthvað í þessum sveitum sem og fleiri sem hann hafði viðkomu í.

Um 1970 var Viðar farinn að koma fram einn með gítarinn í einhvers konar trúbadorahlutverki, sem átti eftir að verða hans lifibrauð löngu síðar en á áttunda áratugnum lék hann lengst af með Stuðlatríóinu sem lék aðallega á pöbbum en auk þess á árshátíðum, þorrablótum og þess konar samkomum, þar ægði saman öllum straumum og stefnum allt frá gömlu dönsunum til þyngra efnis.

Haustið 1973 sendi Viðar frá sér tveggja laga plötu með frumsömdu efni, sem tekin hafði verið upp í Klúbbnum um vorið. Með honum léku félagar hans úr bransanum og varð lagið Sjóarinn síkáti nokkuð vinsælt og heilmikið leikið í útvarpi, lagið varð ennfremur tekið upp í frægri lagasyrpu með Upplyftingu um áratug síðar auk þess sem Vagnsbörn (frá Bolungarvík) höfðu það á plötu einnig árið 1993. Upphaflega útgáfan með Viðari hefur hins vegar aldrei verið endurútgefin, hvorki á geisladiski né á víðáttum netheima. Hitt lag plötunnar, Svona er lífið, heyrðist hins vegar mun sjaldnar. Platan fékk þokkalega dóma í Morgunblaðinu.

Fjórum árum síðar kom síðan út breiðskífa með tólf lögum eftir Viðar en hann samdi jafnframt flesta textana. Geimsteinn gaf plötuna út og þ.a.l. komu fjölmargir þjóðþekktir tónlistarmenn að gerð hennar s.s. Rúnar Júlíusson, Sigurður Karlsson, Karl J. Sighvatsson og Gunnar Ormslev svo einungis nokkur nöfn séu nefnd. Einnig syngur Diddú með honum á plötunni en hún var þá nýlega komin fram á sjónarsviðið. Platan var tekin upp í Hljóðrita af Tony Cook og Jónasi R. Jónssyni.

Platan, sem bar nafn Viðars fékk nokkuð misjafna dóma í blöðunum, sæmilega í Þjóðviljanum og Morgunblaðinu en fremur slaka í Tímanum. Nokkur laga hennar fengu þó töluverða spilun í útvarpi og Viðar vakti heilmikla athygli fyrir jóðl sitt í laginu Saga úr sveit en í því lagi og reyndar fleiri lögum plötunnar var heilmikill kántríkeimur sem Viðar varð á síðari tímum einmitt þekktur fyrir. Reyndar urðu einhver blaðaskrif yfir laginu Stína og ég en ýmsum þykir hluti lagsins minna nokkuð á lagið Einsi kaldi úr Eyjunum, sem er líklega ekki alveg úr lausu loftið gripið.

Eftir útgáfu plötunnar fór minna fyrir Viðari um nokkurt skeið en hann birtist síðan aftur með Geimsteins-genginu í hljómsveitinni Áhöfninni á Halastjörnunni sem fór mikinn í upphafi níunda áratugarins. Hann söng nokkur lög á þremur fyrstu plötum sveitarinnar (af fjórum) á árunum 1980 til 82, en 1983 kom út platan Minningar mætar á vegum SG-hljómplatna, þar sem Viðar syngur ásamt Ara Jónssyni gamla erlenda slagara við íslenska texta úr ýmsum áttum. Þessi plata fór ekki ýkja hátt og virðist engin gagnrýni hafa birst um hana í fjölmiðlum, hún var hljóðrituð í Hljóðrita og annaðist Ólafur Gaukur Þórhallsson útsetningar og hljómsveitastjórn.

Viðar og Ari Jónsson

Næstu árin var lítið að frétta af Viðari en sjálfsagt hefur hann þó verið að spila eitthvað með litlum hljómsveitum og sem trúbador. Árið 1987 kom Plantan saman á nýjan leik og lét eitthvað að sér kveða opinberlega en að öðru leyti heyrðist lítið af honum.

Það var svo á tíunda áratugnum sem fór að heyrast frá Viðari á nýjan leik en það var að mestu leyti tengt pöbbaspilamennsku. Framan af áratugnum var hann að leika með Þóri Úlfarssyni, Dan Cassidy og fleirum, stundum í dúói, stundum tríói eða jafnvel fleiri saman undir ýmsum nöfnum s.s. Borgarsveitin, Amigos og Kúrekarnir en undir síðast nefnda nafninu áttu þeir félagarnir lag á safnplötunni Lagasafnið: Frumafl (1992). Viðar kom reyndar við sögu á fleiri Lagasafns-plötum, hann söng með Vönum mönnum á Lagasafninu 5 (1996) (var þó líklega aldrei í þeirri sveit) en síðan birtist hann í eigin nafni á Lagasafni 7 (1999) með tvö frumsamin lög en hann var nokkuð afkastamikill í lagasmíðum þann áratuginn.

Viðar kom jafnframt mjög oft fram einn með gítar og söng að vopni og frá og með árinu 1993 starfaði hann nánast eingöngu við tónlist, eftir því sem hann sagði síðar í blaðaviðtali. Jafnvel stóð þá til að hann myndi gefa út plötu með eigin lögum við texta Þorsteins Eggertssonar en af því varð aldrei. Á þessum tíma hafði kántríáhuginn tekið öll völd hjá honum og hann var duglegur að breiða þann boðskap út en eins konar kántrívakning gekk þá yfir landið með tilheyrandi aukaverkunum s.s. línudansi o.fl., hann var t.d. í forsvari fyrir kántrí-áhugamannaklúbb sem starfaði við nokkrar vinsældir. Svo virðist sem Viðar hafi leikið í mörg hundruð skipti þennan áratug, oftar en ekki á stöðum eins og Catalínu og Kringlukránni, þá kom hann einnig fram á kántríhátíðum sem haldnar voru á Skagaströnd en sagan segir ennfremur að hann hafi komið fram á einhverri hátíð í Litháen frammi fyrir tugum þúsunda áhorfenda.

Framan af nýrri öld var hægt að ganga út frá að Viðar væri við spilamennsku á einhverjum pöbbnum, yfirleitt á höfuðborgarsvæðinu en einnig kom hann t.d. fram á stórri kántríhátíð sem haldin var á Broadway, um tíma lék hann með einhverri sveit, líklega dúett sem bar nafnið Duo Spez.

Árið 2003 sendi Viðar frá sér sína aðra sólóskífu en hún bar titilinn Flakkarinn, gefin út af Moonlight records. Viðar sem hafði unnið í nokkur ár að plötunni, samdi mest allt efni hennar sjálfur en þau voru öll í kántrístílnum, það var félagi hans til margra ára, Þórir Úlfarsson sem vann plötuna með honum. Flakkarinn hlaut mjög góða dóma í Morgunblaðinu og ágæta í Fréttatímanum einnig. Ári síðar kom Viðar lítillega við sögu á plötunni Kvöldgeislar sem hafði að geyma lög eftir Sigurbjörgu Petru Hólmgrímsdóttur.

Árin 2004 lék Viðar áfram eitthvað á pöbbum höfuðborgarsvæðisins þótt í minni mæli væri en áður, hann hætti því svo alveg á árinu 2005 en hann var þá farinn að nálgast sextugt.

Lög Viðars hafa ekki komið mikið út í endurúgáfum en einhver þeirra komu þó út á Stjörnuplötunum, sem var safnplötusería gefin út af Geimsteini á sínum tíma.

Efni á plötum