Iceland Airwaves 2022 – Veislan heldur áfram

Sucks to be you, Nigel

Annar dagur Iceland Airwaves er runninn upp og sem fyrr er heilmikið bitastætt í boði. Hér eru örfáar ábendingar fyrir kvöldið.

BSÍ – Dúettinn BSÍ (Sigurlaug Thorarensen og Julius Rothlaender) spratt fram á sjónarsviðið fyrir um fjórum árum með sjö tommu ep-plötu sem vakti nokkra athygli, sem þau fylgdu svo eftir með fimm laga skífunni Stundum þunglynd … en alltaf andfasísk vorið 2021 sem hefur m.a. að geyma þeirra vinsælasta lag, Vesturbæjar beach en tónlistina þeirra mætti e.t.v. skilgreina sem skrýtipopp. BSÍ kemur fram í Gamla bíói í kvöld klukkan 20:20.

Eydís Evensen – Blönduósingurinn Eydís Helena Evensen píanóleikari og tónskáld kemur fram í Fríkirkjunni í kvöld klukkan 22:30 og leikur áheyrilega nýklassík. Hún sendi fyrir um tveimur árum síðan frá sér plötuna Bylur og fylgdi henni síðan eftir með Bylur Reworks sem hafði að geyma remix af fyrri plötunni, og fyrr á þessu ári kom svo út fjögurra laga smáskífa sem ber nafnið Frost. Eydís hefur verið að vekja verulega athygli utan landsteinanna og er vert að fylgjast vel með henni.

Kusk + Óviti – Kusk (Kolbrún Óskarsdóttir sigurvegari síðustu Músíktilrauna) og Óviti (Hrannar Máni) koma fram saman í kvöld á Kex Hostel klukkan 21:00 en þau hafa verið að vinna tónlist undanfarið og sendu t.a.m. frá sér lagið Flugvélar fyrr á þessu ári. Kusk sendi nýlega frá sér plötuna Skvaldur og Óviti gaf út plötuna Ranka við árið 2021 og vinnur að nýrri plötu.

Sucks to be you, Nigel – Síðpönksveitin Sucks to be you, Nigel var meðal Kraumsverðlaunahafa á síðasta ári en þá gaf sveitin út plötuna Tína blóm, samnefnd lag fékk þá nokkra spilun í útvarpi. Sveitina skipa þau Silja Rún söngkona, Ernir trymbill, Krummi bassaleikari og Vigfús gítarleikari en Sucks to be you, Nigel er að spila á Gauknum klukkan 20:20.

Superserious

Ultraflex – Íslensk-norski dúettinn Ultraflex treður upp laust eftir miðnætti (klukkan 00:15) á Húrra en sveitin er skipuð þeim Katrínu Helgu Andrésdóttur (Special K o.m.fl.) og hinni norsku Kari Jahnsen en þær kynntust í Berlín og hófu að búa til eighties skotið popp, þær hafa gefið út plöturnar Visions of Ultraflex (2020) og Infinite Wellness (2022).

Superserious – Og að síðustu er hér nefnd hljómsveitin Superserious sem sendu frá sér nú í haust lagið Bye bye baby en gáfu árið 2021 út sex laga skífuna Let‘s get serious. Sveitina skipa þau Daníel Jón Jónsson, Heiða Dóra Jónsdóttir, Kristinn Þór Óskarsson, Haukur Jóhannesson og Helgi Einarsson, þau koma fram á Gauknum klukkan 23:20 í kvöld.