Afmælisbörn 10. ágúst 2022

Nanna Egilsdóttir

Fimm afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar í dag:

Nikulás Róbertsson hljómborðsleikari frá Vopnafirði er sextíu og níu ára gamall. Nikulás lék á sínum tíma með mörgum af vinsælustu hljómsveitunum og má þar nefna sveitir eins og Dínamít, Dögg, Fjörefni, Hljómsveit Birgis Gunnlaugssonar, Paradís, Gneista og Hljómsveit Róberts Nikulássonar, föður Nikulásar.

Ólafur Elíasson píanóleikari er fimmtíu og fimm ára gamall í dag. Hann nam píanóleik hér heima, síðan í Frakklandi og Bretlandi þar sem hann starfaði um tíma en hann býr hér á landi sem stendur. Ólafur hefur gefið út nokkrar plötur með píanóleik sínum en þess má geta að hann hefur einnig fengist við upptökur og var í unglingahljómsveitum hér á árum áður.

Albert Klahn tónlistarmaður átti einnig afmæli á þessum degi. Hann fæddist 1885 í Þýskalandi en flúði til Íslands eins og svo margir undan nasistum. Hér átti hann eftir að gerast mikill tónlistarfrömuður, kenna tónlist, leika með, stofna og stýra hljómsveitum af ýmsu tagi en aðal hljóðfæri hans var fiðla. Albert lést 1960.

Nanna Egilsdóttir óperusöngkona og hörpuleikari átti þennan afmælisdag einnig. Hún fæddist 1914 og var tvíburasystir Svanhvítar sem nefnd er hér að neðan. Nanna nam tónlist sína í Þýskalandi og starfaði þar og í Austurríki þar til heimsstyrjöldin síðari setti strik í reikninginn, eftir það var hún að mestu hérlendis. Nanna lést í bílslysi 1979.

Og að síðustu er hér nefnd tvíburasystir Nönnu, Svanhvít Egilsdóttir söngkona og tónmenntakennari en hún nam sín fræði í Þýskalandi og komst undan stríðsátökum heim til Íslands ásamt tékkneskum eiginmanni sínum, Jan Morávek. Hér starfaði hún um tíma en eftir að hún sleit samvistum við eiginmann sinn fluttist hún til Austurríkis, þar sem hún kenndi söng við góðan orðstír um árabil. Svanhvít lést 1998.

Vissir þú að fyrsta íslenska fótboltalagið var Jói útherji?