Svanhvít Egilsdóttir (1914-98)

Svanhvít Egilsdóttir3

Svanhvít Egilsdóttir

Nafn Svanhvítar Egilsdóttur söngkonu og -kennara var nokkuð þekkt á árum áður en síðari tíma kynslóðir þekkja það síður, saga hennar er þó í mörgu mjög merkileg.

Svanhvít (f. 1914) ólst upp í Hafnarfirði hjá fósturforeldrum en hún átti tvíburasysturina Nönnu, sem einnig átti eftir að starfa við tónlist. Þær ólust upp í sitt hvoru lagi. Svanhvít hóf snemma að læra á píanó hjá Ingibjörgu Benediktsdóttur og síðar Franz Mixa og Páli Ísólfssyni. Ríflega tvítug hleypti hún heimdraganum og hélt til Þýskalands í söngnám, haustið 1937 kom hún heim og söng á tónleikum hér heima, þá söng hún einnig hlutverk í óperettunni Bláu kápunni 1938. Sama ár hélt hún aftur til Þýskalands en nú ásamt Nönnu systur sinni til frekara söngnáms, þar lærðu þær og sungu víðar á tónleikum og störfuðu einnig með þarlendum hljómsveitum.

Þegar heimsstyrjöldin síðari skall á 1939 urðu þær systur innlyksa niðri í Evrópu og voru þær lengst af Graz og Vín í Austurríki, fóru þaðan frá Þýskalandi. Svanhvít hafði kynnst tékkneskum tónlistarmanni (Jan Morávek) en hún hafði þá sagt skilið við fyrri eiginmann sinn sem hún hafði gifst 1934 hér heima. Þær Nanna komust ekki heim til Íslands fyrr en í stríðslok, þá höfðu þau Morávek gift sig en hann kom þó ekki fyrr en síðar til landsins (1948), Jan Morávek átti eftir að starfa hérlendis alla tíð síðan en þau Svanhvít slitu samvistum síðar.

Hér heima söng Svanhvít víða næstu árin og fór m.a. í tónleikaferð um norðurland ásamt eiginmanni sínum, hún söng í uppfærslum á La traviata og Bláu kápunni í annað sinn, svo dæmi séu tekin. 1956 fór hún út aftur til Austurríkis til frekara söngnáms, lærði þá hjá Sigurði Demetz en þau áttu í stuttu ástarsambandi.

Svanhvít Egilsdóttir

Svanhvít 1979

Um þetta leyti tók tónlistarferill Svanhvítar nýja stefnu þegar hún hóf að kenna söng við Academic für Music und darstellende Kunst í Vín. Þar skipaði hún sér sess sem virtur kennari við skólann og varð frami hennar þar mjög skjótur, hún var skipuð prófessor við skólann 1961 en hlaut fasta prófessorastöðu 1977.

Svanhvít kenndi við skólann allt til ársins 1984 þegar hún fór á eftirlaun en hélt áfram einkakennslu. Hún kom reglulega heim til Íslands til námskeiðahalds eftir að hún hætti almennri kennslu við skólann en slík námskeið hélt hún víða um heim.

Árið 1994 keypti Svanhvít hús á æskustöðvunum í Hafnarfirði og var með annan fótinn hér heima til æviloka þótt hún dveldi lengst um í Austurríki en hún lést á Landsspítalanum 1998 eftir stutta sjúkdómslegu, þá áttatíu og fjögurra ára að aldri.

Saga Svanhvítar þykir merkileg og 2002 kom út ævisaga hennar á vegum Almenna bókafélagsins, bókin heitir Tvístirni en hana skráði Guðrún Egilson.

Svanhvít var fyrst og fremst söngkennari og verður minnst fyrir það, en hún hlaut fálkaorðuna fyrir framlag sitt þar. Söngferill hennar var þannig ekki eins þekktur og söng hún t.d. aldrei inn á plötu, Ríkisútvarpið á þó án efa í fórum sínum einhverjar upptökur með söng hennar.