Albert Klahn (1885-1960)

Albert Klahn

Albert Klahn

Albert Klahn var einn þeirra erlendu tónlistarmanna sem hingað til lands komu á fyrri hluta tuttugustu aldarinnar og settu mikinn svip á tónlistarlíf Íslendinga auk þess að stuðla að miklum framgangi þess.

Albert Klahn var fæddur í Þýskalandi 1885 og var snemma ljóst hvert stefndi því hann var farinn að læra á fiðlu hjá föður sínum aðeins sex ára gamall og tveimur árum síðar var hann kominn í hljómsveit sem faðir hans stýrði. Tónlist varð því líf hans og yndi og lék hann á flest hljóðfæri, kenndi og stýrði hljómsveitum víða um heim áður en hann kom fyrir tilstuðlan Þórhallar Árnasonar sellóleikara til Íslands vorið 1934 ásamt konu sinni, hún var gyðingur og auk þess svarinn andstæðingur Hitlers svo þeim var ekki vært í Þýskalandi á þeim tíma, hingað til lands komu þau hjónin frá Hamborg og hafði Albert þá um þrjátíu ára víðtæka reynslu af spilamennsku og hljómsveitastjórnun.

Fyrst um sinn stýrði Albert hljómsveit á Hótel Borg þar sem hann lék sjálfur á fiðlu en haustið 1936 tók hann við stjórn Lúðrasveit Reykjavíkur af Páli Ísólfssyni, stærsta breytingin á sveitinni undir stjórn Albert var að bæta við tréblásturshljóðfæraleikunum en fram að því hafði sveitin eingöngu verið hornaflokkur. Strax var eftir því tekið hversu miklum framförum sveitin tók undir stjórn hans og átti hann eftir að stýra henni til haustsins 1949, að einu og hálfu ári undanskildu. Albert var þó ekki lengi verkefnalaus því hann kom að stofnun Lúðrasveitar Hafnarfjarðar snemma árs 1950 og stýrði þeirri sveit til dánardags.

Albert kom miklu víðar að íslensku tónlistarlífi, hann var t.a.m. í Hljómsveit Reykjavíkur, hann var einnig í fyrstu útgáfu Sinfóníuhljómsveitar Íslands sem tók til starfa 1950, lék þar á pákur en stýrði sveitinni stundum einnig, hann stýrði einnig Útvarpshljómsveitinni í afleysingum, kenndi á ýmis hljóðfæri, raddsetti og aðstoðaði lúðrasveitir um land allt auk annarra verkefna sem til féllu.

Albert hlaut íslenskan ríkisborgararétt 1947 en fyrstu misserin hérlendis hafði hann starfað í óþokk Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) þar sem hann var útlendingur, það átti þó eftir að breytast en hann var kjörinn fyrsti heiðursfélagi FÍH 1958.

Albert Klahn lést síðla árs 1960 á sjötugasta og sjötta aldursári, hann var þríkvæntur og lifði allar eiginkonur sínar. Minningarsjóður um hann var stofnaður tveimur árum eftir andlát hans.