Nanna Egilsdóttir (1914-79)

Nanna Egilsdóttir

Nanna Egilsdóttir

Nanna Egilsdóttir var söngkona og hörpuleikari sem átti viðburðaríka ævi.

Nanna fæddist í Hafnarfirði 1914, hún var tvíburasystir Svanhvítar Egilsdóttur sem einnig lagði fyrir sig söng en þær systur lokuðust niðri í Austurríki við upphaf heimsstyrjaldarinnar síðari haustið 1939 en þar voru þær starfandi. Nanna hafði farið 1933 til Þýskalands til að nema söng og hörpuleik og þaðan fór hún til Austurríkis og Sviss til framhaldsnáms. Enn síðar var hún í framhaldsnámi í söng á Ítalíu og Englandi en starfaði sem fyrr segir í Austurríki sem óperusöngkona þegar stríðið brast á.

Nanna var um tíma gift Þórhalli Árnasyni sellóleikara en þau skildu, hún giftist síðar Birni Sveinssyni Björnssonar (syni forseta Íslands) og tók upp föðurnafn hans er þau bjuggu erlendis, þá kallaði hún sig Nönnu Egils Björnsson.

Við lok styrjaldar fóru þau hjónin til Argentínu þar sem Nanna hélt áfram söngnámi og söng einnig óperuhlutverk þar sem og í Brasilíu, þaðan fóru þau til Þýskalands en til Íslands komu þau um áramótin 1963-64 og bjuggu hérlendis eftir það.

Hér söng Nanna eitthvað opinberlega og í útvarpið en mestmegnis kenndi hún söng eftir að hún flutti heim.

Nanna bjó um tíma í Vestmannaeyjum, kenndi þar söng og stjórnaði Samkór Vestmannaeyja og setti þar upp óperettuna Meyjaskemmuna en einnig var farið með þá sýningu til Færeyja, það var í fyrsta skipti sem óperetta var sett á svið þar í landi.

Eftir eldgosið í Heimaey 1973, þar sem hús þeirra hjóna eyðilagðist, fluttu þau upp á meginlandið og bjuggu í Mosfellssveit (nú Mosfellsbæ) eftir það. Nanna kenndi söng við Söngskólann í Reykjavík frá stofnun hans en hún kenndi mörgum síðar þekktu söngfólki.

Nanna lést í umferðarslysi snemma vors 1979 en ölvaður og ökuréttindalaus bílstjóri olli slysinu. Hún var þá á sextugasta og fimmta aldursári.

Engar plötur komu út með söng Nönnu.