Stemma [2] [hljóðver / útgáfufyrirtæki] (1980-)

Sigurður Rúnar í Stemmu 1980

Hljóðverið og útgáfufyrirtækið Stemma hefur verið starfandi síðan árið 1980 en fremur hljótt hefur verið um það síðustu árin þótt líklega sé það enn starfrækt.

Tildrög þess að Stemma var stofnuð á sínum tíma var einokun Hljóðrita í Hafnarfirði á upptökumarkaðnum en það var þá eina starfandi hljóðverið fyrir utan Tóntækni sem var í eigu SG-hljómplatna og starfandi nánast einvörðungu fyrir þá plötuútgáfu. Fyrirtækið var stofnað að frumkvæði Sigurðar Rúnars Jónssonar (Didda fiðlu) en hann fékk sér til samstarfs nokkra aðila sem fjármögnuðu kaup á upptöku- og hljóðblöndunartækjum gegn hljóðverstímum, það voru aðilar eins og Hjálmar H. Ragnarsson, Atli Heimir Sveinsson, Áskell Másson, Leikfélag Reykjavíkur, Jón Sigurðsson (Jón bassi, faðir Sigurðar) og fáeinir aðrir. Hljóðverið tók til starfa um haustið 1980 að Laufásvegi 12 en þá höfðu breytingar á húsnæðinu staðið yfir um nokkurra mánaða skeið, Sigurður Rúnar fór svo til Bretlands og festi kaup á sextán rása upptökutæki og mixer, echo-tækjum og öðrum búnaði til að hefja reksturinn.

Strax var hafist handa við upptökur og fyrstu plöturnar sem hljóðritaðar voru í Stemmu voru með Hallbirni Hjartarsyni og Heimavarnarliðinu en á næstu árum var mikið að gera og plötur með tónlistarfólki og hljómsveitum eins og Hálfu í hvoru, Bergþóru Árnadóttur, Bjartmari Guðlaugssyni, Megasi, Gildrunni, Model, Ham og fleirum voru hljóðritaðar þar. Einnig var hljóðverið vinsælt meðal kóra og stærri hljómsveita sem nýttu sér óspart það að Stemma hafði á að skipa færanlegum upptökutækjum og því var ekkert því til fyrirstöðu að hljóðrita plötur t.d. í kirkjum og stærri sölum. Stemma annaðist einnig hljóðvinnslu á sjónvarpsauglýsingum, kvikmyndum o.fl. og jafnframt komu út nokkrar plötur undir merkjum fyrirtækisins sem þá var einnig útgáfufyrirtæki.

Árið 1987 flutti Stemma vestur á Seltjarnarnes í húsnæðið sem forðum geymdi fiskvinnslufyrirtækið Ísbjörninn en þar varð fyrirtækið með stærsta upptökusal landsins sem var um 210 fermetrar að grunnfleti og með átta metra lofthæð, stjórnklefinn á nýja staðnum var jafnstór öllu húsnæðinu á Laufásveginum en þar var hljóðverið m.a. með 76 rása hljóðblöndunarborð. Þess má geta að meðal þeirra sem hljóðrituðu í nýja húsnæðinu í gamla Ísbirninum var Bubbi Morthens sem þar söng lagið Við heimtum aukavinnu fyrir plötu með lögum Jóns Múla Árnasonar en Bubbi hafði einmitt nokkrum árum fyrr sungið hinar fleygu línur „ég ætla aldrei, aldrei, aldrei, aldrei meir að vinna í Ísbirninum“ á plötunni Ísbjarnarblús en það verður ekki betur séð en að hann hafi svikið það loforð þarna.

Stemma var í nokkur ár á Seltjarnarnesi en þegar umsvif fyrirtækisins fóru minnkandi á tíunda áratugnum var Sigurður Rúnar með hljóðverið heima hjá sér í Kópavoginum en þá hafði hann sérhæft sig í upptökum á kórsöng og líklega hafa flestir kórar landsins sem gefið hafa út plötur nýtt sér þjónustu hans, í viðtali sagðist hann hafa tekið upp allt að fimmtán kóra á ári. Eftir aldamót fóru heimastúdíó að ryðja sér til rúms og þá fór þörfin fyrir stærri upptökuver þverrandi, Sigurður starfrækti þó hljóðverið áfram og m.a.s. eftir að hann flutti upp í Borgarfjörð enda var leikur einn að fara með tækin milli staða. Fólk var enn að nýta sér þjónustu Stemmu fram á annan áratug nýrrar aldar en síðustu árin hefur starfsemin verið mun minna áberandi enda hefur Sigurður Rúnar búið erlendis síðustu árin. Stemma er þó ennþá starfandi eftir því sem best verður vitað.