Í Reykjavík starfaði unglingahljómsveit á fyrri hluta sjöunda áratugarins undir nafninu Strengir, auðvelt er að rugla þeirri sveit við aðra með sama nafni sem starfaði stuttu síðar en Þráinn Kristjánsson umboðsmaður fyrri hljómsveitarinnar taldi sig eiga nafnið og setti það á þá síðari um hálfu ári eftir að sú fyrri (sem hér um ræðir) hætti störfum.
Strengir voru líklega stofnaðir haustið 1963 en hún kom fram á sjónarsviðið fljótlega eftir áramótin 1963-64 og lék þá gítartónlist í anda The Shadows, sveitin innihélt þó söngvara. Sveitin var í upphafi eins konar skólahljómsveit Gagnfræðaskóla verknáms og var framan af tríó sem þeir Sigurður Árnason bassaleikari og söngvari, Jón Garðar Elísson gítarleikari og Reynir Harðarson trommuleikari skipuðu, Arnar Sigurbjörnsson gítarleikari bættist svo í hópinn og þannig var sveitin skipuð þar til hún hætti störfum öðru hvorum megin við áramótin 1964-65 – í kjölfarið tók sveitin sem minnst er á hér að ofan við nafninu.
Strengir léku framan af aðallega á skólaböllum og sem pásusveit með öðrum sveitum, þeir félagar voru einnig á meðal sveita sem léku með The Telstars er sú sveit lék í Austurbæjarbíói haustið 1964, hugsanlega flokkaðist sveitin sem bítlasveit undir lokin.














































