Sandkassinn

Sandkassinn
(Lag og texti: Kristján Hreinsson)

Hér áðan rétt við sandkassann ég sá þig,
og sjálfsagt fann ég kvikna heita þrá.
Með augun blá þú stóðst og starðir á mig,
svo stolt ég vildi leika við þig þá.
Og okkur þótti gasalega gaman.
Ég gaf þér þykjó-brauð og líka djús
og eftir matinn sátum við þar saman
í sandinum og byggðum lítið hús.

Og bráðum verður allur sigur unninn,
þá ýmislegt mun ganga mér í hag,
þú vilt þú fá að kyssa mig á munninn
að minnsta kosti fimm sinnum á dag.

Og núna horfi ég á brosið breiða
og birtuna sem frá þér alltaf skín,
um sandkassann mig langar þig að leiða
svo líti út sem ég sé konan þín.
Um kærleikann og lífsins leiki alla
lærum við og tökum virkan þátt
og seinna meir við sitthvað munum bralla
er saman stefnum við í rétta átt.

Við verðum hjón á merkri mynd í ramma,
mætum stolt til leiks í hverja törn,
þá sterkur pabbi, ég hin milda mamma
á móti okkur hlaupa glaðleg börn.
Í draumi sæl ég vil þín fá að vitja,
mín von er eitt það besta sem ég á.
Og börnin okkar seinna munu sitja
í sandkassa og finna djúpa þrá.

[af plötunni Barnalög: Mig langar að læra – ýmsir]