Stúlknakór Hrafnagilsskóla (1972 / 1984-85)

Stúlknakór Hrafnagilsskóla 1972

Stúlknakór Hrafnagilsskóla mun hafa verið starfræktur á einhverjum tímaskeiðum á áttunda og níunda áratug liðinnar aldar, upplýsingar um þann kór (eða kóra) er þó því miður af skornum skammti.

Slíkur kór var starfandi við Hrafnagilsskóla í Eyjafirði veturinn 1972-73 en skólinn var þá tiltölulega nýtekinn til starfa, og söng hann við vígslu skólahússins síðla hausts 1972 undir stjórn Sigríðar Schiöth. Kórinn skipuðu þá líklega um tuttugu stúlkur en nemendur skólans voru á þeim tíma milli sextíu og sjötíu talsins.

Ekki liggur fyrir hvort kórastarfið var samfleytt eftir þetta, einhver vísir að stúlknakór var við skólann vorið 1975 en nokkrar stúlkur sungu þá á skemmtun í sveitinni við gítarundirleik. Staðfestar heimildir um kór er svo að finna frá vetrinum 1984-85 en þá stjórnaði Atli Guðlaugsson Stúlknakór Hrafnagilsskóla.

Blómlegt söngstarf virðist alla tíð hafa verið við skólann, þar hafa verið starfandi skólakór og barnakór en ekki liggja fyrir frekari upplýsingar um stúlknakór og er því hér með óskað eftir frekari upplýsingum um málið.