Sveinbjörn Beinteinsson (1924-93)

Sveinbjörn Beinteinsson árið 1958

Sveinbjörn Beinteinsson verður líklega seint beinlínis talinn til tónlistarmanna en hann hélt rímnakveðskap á lofti alla sína ævi, kvað rímur og gaf út kennsluefni um þær auk þess sem nokkrar plötur og kassettur komu út með rímnakveðskap hans. Margir muna eftir framlagi hans í upphafsatriði kvikmyndarinnar Rokk í Reykjavík en hann kom oftsinnis fram ásamt pönk- og nýbylgjusveitum þess tíma og brúaði þannig bilið bæði milli kynslóða og tjáningaforma.

Sveinbjörn Beinteinsson var fæddur árið 1924 að bænum Grafardal í uppsveitum Borgarfjarðar og bjó þar fyrstu árin en síðan á Draghálsi í sömu sveit þar sem hann kenndi sig við síðan en þar bjó hann nánast til æviloka sem bóndi með fáeinar kindur. Hann var yngstur átta systkina sem öll voru hagmælt en foreldrar þeirra voru einnig hagyrðingar ágætir. Sveinbjörn hóf ungur að semja lausavísur og annan kveðskap, kunni þau fræði upp á tíu og byrjaði snemma einnig að miðla kunnáttu sinni til annarra.

Fyrsta ljóðabók hans, rímnaflokkurinn Gömlu lögin kom út 1946 en Sveinbjörn var þá aðeins 17 ára gamall, í þeirri bók var að finna átján afbrigði rímnahátta sem þótti með ólíkindum af ekki eldri höfundi. Fjölmargar bækur með ýmis konar kveðskap áttu síðar eftir að koma út eftir hann og einnig fjöldi fræðirita um kveðskap s.s. útgáfur á eldri rímum sem hann hélt utan um – þekktast fræðirita hans var Bragfræði og háttatal, sem kom út 1953 og var m.a. notað til kennslu í rímnafræðum, Sveinbjörn ritaði ennfremur heilmikið um bókmenntir og bragfræði í dagblöð alla tíð. Auk rímna og rímnatengds kveðskapar mun Sveinbjörn einnig hafa samið eitthvað af dægurlagatextum auk þess sem hann þýddi ásamt Þorsteini frá Hamri og Böðvari Guðmundssyni söngtextana í Túskildingsóperunni.

Þrátt fyrir að búa í hálfgerðum afdal þar sem hann var án rafmagns og hitaveitu, hafandi þessi forntengdu áhugamál og jafnvel útlit sem þótti æði forneskjulegt enda skartaði Sveinbjörn alltaf gríðarmiklu skeggi sem blaðamönnum var tíðrætt um, var hann ágætlega tengdur nútímanum og var mikið á ferð í Reykjavík þar sem hann blandaði geði við aðra bóhema höfuðborgarsvæðisins á Mokka og varð smám saman þekktur og vinsæll fræðimaður enda var hann oft fenginn í menntaskólana til að uppfræða ungviðinn um rímnakveðskap og náði alltaf af því er virðist ágætu sambandi við yngri kynslóðir. Hann dvaldi á höfuðborgarsvæðinu yfirleitt yfir sumartímann og munaði ekki um að ganga úr Borgarfirðinum til Reykjavíkur þar sem hann vann við fræðistörf á bókasöfnum milli þess sem hann stundaði Mokka og Naustið, þá hélt hann stundum svokallaðar „ljóðasýningar“ á Mokka en þá voru lausavísur hans settar í myndform.

Sveinbjörn fékk þá hugdettu að endurvekja heiðinn sið á Íslandi og var í forsvari fyrir stofnun ásatrúarfélags árið 1972 sem varð ári síðar að löglegum trúarsöfnuði og hlaut Sveinbjörn þá titilinn Allsherjargoði, hann var fyrstur til að bera þann titil í um 900 ár og sinnti því embætti til æviloka. Hann hafði þá leyfi til að gefa fólk saman að heiðnum sið en félagið sem í upphafi taldi um tuttugu manns hefur nú að geyma á sjötta þúsund meðlima.

Sveinbjörn Beinteinsson

Um 1980 þegar pönk- og nýbylgjuvakningin stóð sem hæst hér á landi var Sveinbjörn vel kynntur meðal ungs fólks enda hafði hann þá um árabil kynnt menntskælingum kveðskaparfræðin, fór hann að koma fram á samkomum ungs fólk og einkum og sérílagi tónleikum þegar sem pönk- og nýbylgjuhljómsveitir komu fram, s.s. á tónleikum NEFS í Félagsstofnun stúdenta og á Hótel Borg. Upphaf þess má rekja til þess að Sveinbjörn tróð upp á tónleikum Purrks Pillnikk á Akranesi og í kjölfarið fór hann að koma fram á tónleikum á höfuðborgarsvæðinu ásamt Purrkinum, Lojpippos og Spojsippus, Q4U og fleiri sveitum. Segja má að í kjölfarið hafi orðið eins konar vakning meðal ungs fólks fyrir rímum og sem dæmi má nefna að í eitt skipti mættu um 300 manns en það var ekki sjálfgefið að svo margir mættu á pönktónleika. Á einum slíkum tónleikum voru menn Friðriks Þórs Friðrikssonar á ferð með kvikmyndavélar en Friðrik var þá að skjóta kvikmyndina Rokk í Reykjavík og opnaði síðan þá mynd eftirminnilega með Sveinbirni kveðandi rímur – og auðvitað var Sveinbjörn meðal flytjenda á plötunni með tónlistinni úr Rokk í Reykjavík. Óhætt er að segja að allar yngri kynslóðir landsins hafi þá í kjölfarið þekkt ásjónu hans og nafn.

Á næstu árum kom Sveinbjörn töluvert fram með yngra fólki, m.a. á eftirminnilegum tónleikum í MH ásamt Kukli og Psychic TV haustið 1983 og einnig með S.h. draumi og Einstürzende Neubauten í Roxzy árið 1986. Sveinbjörn varð jafnframt vinsæll á hagyrðingakvöldum, kom nokkuð fram í sjónvarpi og lék sjálfan sig í kvikmyndinni Dalalífi (1984) þar sem hann gifti aðra aðalpersónu myndarinnar að ásatrúarsið á Austurvelli en það atriði hafði átt sér hliðstæðu í raunveruleikanum haustið 1982 með þeim afleiðingum að viðkomandi þurftu að höfða dómsmál til að fá hjónabandinu hnekkt, en hjónaefnin höfðu staðið í þeirri trú að hjónavígslan væri grín.

Og svo fór að Grammið, útgáfufyrirtæki sem þá hafði verið stofnað til að gefa út tónlist Purrks Pillnikk gaf út plötu með Sveinbirni árið 1982 undir titlinum Sveinbjörn Beinteinsson kveður úr eddukvæðum, þar sem hann fór með erindi úr Völuspá, Hávamálum og Sigurdrífumálum. Heilmikill fróðleikur fylgdi í bæklingi plötunnar en Gunnar Reynir Sveinsson hafði hljóðritað flutning Sveinbjörns, jafnframt ritaði Sigurður A. Magnússon kynningu á Sveinbirni en aðeins voru þrjú hundruð eintök gerð af plötunni og seldist hún því fljótlega upp og er sjaldséður gripur meðal plötusafnara í dag, hún fékk góða dóma í DV. Áður hafði komið út kassetta með Sveinbirni sem bar titilinn Bragfræði og háttatal (1981) með eins konar fræðsluefni. Árið 1990 kom svo út önnur plata með Sveinbirni – 93 Current 93 present Sveinbjörn Beinteinsson: Edda, þar sem upplestur hans úr Völuspá, Hávamálum og Sigurdrífumálum var að finna en einnig frumsaminn kveðskapur Sveinbjörns.

Sveinbjörn á Draghálsi

Sveinbjörn hélt áfram starfi sínu allt til dauðadags, vann að útgáfumálum og kom fram við ýmis tækifæri bæði til fræðslu og skemmtunar en var fyrst og fremst allsherjargoði. Hann flutti frá Draghálsi niður á Hvalfjarðarströnd haustið 1990 og þar bjó hann þar til hann lést um jólin 1993. Ári fyrr hafði komið út ævisaga skráð af honum sjálfum í samstarfi við Berglindi Gunnarsdóttur og hét Allsherjargoðinn.

Árið 1994 kom svo út endurútgáfa á fyrri plötum hans undir nafninu Edda, á tveimur plötum á vegum Smekkleysu. Flutning hans á kveðskap má þá einnig heyra á nokkrum safnplötum og má þar nefna t.d. Vikivaki: Icelandic folksong – Songs from the saga island (1991), Gramm: New Icelandic music (1987) og Geyser: Anthology of the Icelandic independent music scene of the eighties (1987), auk nokkurra erlendra safnútgáfa en Sveinbjörn naut alltaf töluverðrar athygli erlendra fjölmiðla sem allsherjargoði.

Sveinbjörns Beinteinssonar verður alltaf fyrst og fremst minnst sem fyrsta allsherjargoða Ásatrúarfélagsins og hefur í því skyni verið gerð heimildarmynd um hann auk þess sem reistur var minnisvarði um hann í Öskuhlíð við hof Ásatrúarmanna, í tónlistartengdum skilningi verður hann þó eflaust alltaf maðurinn sem kvað rímur í upphafsatriði Rokks í Reykjavík.

Efni á plötum