Sigurður Ísólfsson (1908-92)

Sigurður G. Ísólfsson

Orgnistans Sigurðar Ísólfssonar verður e.t.v. helst minnst fyrir ríflega hálfrar aldar starf sitt við Fríkirkjuna í Reykjavík en hann starfaði við kirkjuna fyrst sem aðstoðarmaður og svo organisti og kórstjóri.

Sigurður G. Ísólfsson (Sigurður Guðni Ísólfsson) fæddist sumarið 1908 á Stokkseyri og er ekki hægt að segja annað en að tónlistin hafi verið honum borin í blóð því hann var sonur Ísólfs Pálssonar sem var tónskáld, organisti og margt fleira á Stokkseyri og var Páll Ísólfsson sem einnig var tónskáld og organisti elsti bróðir Sigurðar en fimmtán ár voru á milli þeirra bræðra, Páll elstur en Sigurður tíundi í röðinni af tólf systkinum. Margt þekkt tónlistarfólk er auðvitað komið af þessari ætt.

Sökum aðstæðna á mannmörgu heimili var Sigurður tekinn ungur í fóstur en hafði þó alltaf samskipti við blóðfjölskyldu sína en hann fluttist til Reykjavíkur skömmu eftir að fjölskylda hans gerði slíkt hið sama. Sigurður lærði t.d. tónlist fyrst af Margréti eldri systur sinni en síðan af Páli, fyrst á píanó og svo orgel, það var þó líklega aldrei ætlunin að gera tónlistina að ævistarfi og lærði Sigurður til úrsmiðs fyrstur Íslendinga. Hann starfaði þó lengst hjá Rafmagnsveitum Reykjavíkur að aðalstarfi.

Þeir bræður Sigurður og Páll unnu heilmikið saman í tónlistinni, árið 1931 gerðist Sigurður aðstoðarmaður Páls í Fríkirkjunni í Reykjavík en þar starfaði Páll sem organisti og kórstjórnandi. Sigurður leysti eldri bróður sinn stundum af í organistahlutverkinu og þegar Páll gerðist organisti Dómkirkjunnar með stuttum fyrirvara við fráfall Sigfúsar Einarssonar árið 1939, tók Sigurður við starfi hans við Fríkirkjuna. Upphaflega var hann ráðinn til starfans til eins árs en það eina ár varð að fjörutíu og fjórum árum því hann gegndi því starfi allt til ársins 1983, þá orðinn 75 ára gamall og með lengstan starfsaldur allra organista á landinu. Þess fyrir utan stjórnaði hann einnig kór Fríkirkjunnar og sinnti öðrum skyldum við kirkjuna. Sigurður var ekki alveg hættur sem organisti þá því hann lék oft í messum í Landakoti eftir að störfum lauk við Fríkirkjuna, eða allt til ársins 1989 en hann var þá kominn á níræðis aldur.

Sigurður lék aukreitis oft á tónleikum bæði einleik og sem undirleikari svo starf hans sem orgelleikari einskorðaðist ekki eingöngu við Fríkirkjuna, þá leysti hann Pál bróður sinn stöku sinnum af í Dómkirkjunni og hafði þá yfrið nóg að gera – í blaðaviðtali sagðist hann t.d. hafa leikið í allt að fjórum messum á dag þegar mest var að gera. Sigurður var einnig eitthvað að sinna kennslu en ekki liggja fyrir miklar upplýsingar um þann þátt, þó er vitað að Sigfús Halldórsson var meðal nemenda hans þar.

Sigurður Ísólfsson

Orgelleik Sigurðar er ekki að finna á mörgum plötum, þó má hér nefna að hann lék undir á orgel hjá Þorsteini Björnssyni Fríkirkjupresti á sex 78 snúninga plötum sem komu út um miðjan sjötta áratuginn, þá lék hann einnig á jólaplötunni Jólin hennar ömmu (1969) og á plötu sem SG-hljómplötur gáfu út með ýmsum flytjendum 1979 og helguð var Ísólfi Pálssyni tónskáldi, föður Sigurðar.

Sigurður vann eitthvað að félagsmálum tónlistarmanna, hann var meðal stofnenda Kirkjukórasambands Íslands og sat í fyrstu varastjórn þess félags, hann var svo heiðraður af Félagi íslenskra organleikara að starfsævi sinni lokinni en hann ánafnaði síðar félaginu allt sitt nótnasafn, hann hlaut einnig fálkaorðuna fyrir framlag sitt til tónlistarinnar.

Sigurður lést sumarið 1992, áttatíu og fjögurra ára gamall.