Sigurður Demetz Franzson (1912-2006)

Sigurður Demetz á yngri árum

Segja má að koma Sigurðar Demetz hingað til lands um miðja síðustu öld hafi verið hvalreki fyrir söngunnendur og -nemendur en hann kenndi söng víða um land nánast fram í andlátið, fjölmargir þekktir söngvarar fyrr og síðar stunduðu nám hjá honum.

Uppruni Sigurðar Demetz er pínulítið flókinn, hann var elstur systkina sinna, fæddur í bænum St. Ulrich árið 1912 en sá staður var þá hluti af Austurríki, hann var þ.a.l. austurrískur og var því skírður austurrísku nafni, þ.e. Vincenz Maria Demetz. Þegar St. Ulrich varð hluti Ítalíu eftir fyrri heimsstyrjöldina var bærinn nefndur Ortisei og að kröfu fasista sem þá réðu þar ríkjum var honum gert að taka upp ítalskt nafn, Vincenzo Maria Demetz, ítalska var þá tekið upp sem tungumál borgarinnar.

Vincenzo nam söng í Mílanó og hóf að starfa sem óperusöngvari bæði á Ítalíu, Austurríki og Þýskalandi, m.a. við Scala um þriggja ára skeið en lenti í ýmsum áföllum m.a. vegna veikinda og hóf því að kenna söng einnig samhliða starfi sínu sem söngvari. Í því starfi kynntist hann Svanhvíti Egilsdóttur sem var þá á Ítalíu í söngnámi og var reyndar kærasta hans um tíma, og fyrir hennar hvatningu kom hann hingað til Íslands til að fara í söngferðalag um Norðurlönd með upphafspunkt hér á landi. Hann kom hingað í júlí mánuði 1955 og þegar hann hafði verið hér í skamman tíma ákvað hann að hafa hér vetursetu og kenna söng, vetursetan varð að ríflega hálfri öld því hér kynntist hann stúlku sem hann síðan giftist, og settist hér að. Vincenzo tók sér svo íslenskt ríkisfang og nafnið Sigurður Franzson Demetz en hann gekk reyndar lengi vel undir gælunafninu Demmi.

Starf Sigurðar Demetz hér á landi snerist fyrst og fremst um söngkennslu en fyrst um sinn hélt hann fjölda tónleika, bæði einsöngstónleika og í samstarfi við aðra en hann tók jafnframt þátt í ýmsum óperuuppfærslum. Sem söngkennari var hann fljótlega kominn með þrjátíu nemendur og árið 1957 stofnaði hann Söng- og óperuskólann, leið hans lá einnig út á land til að kenna söng og þannig var hann t.d. um tíma í Keflavík, Ísafirði og Siglufirði við söngkennslu. Á sumrin gegndi hann annars konar störfum, starfaði m.a. sem kokkur í síldinni fyrir norðan og síðar átti hann eftir að starfa sem leiðsögumaður fyrir erlenda ferðamenn en hann þekkti landið fljótlega betur en flestir Íslendingar enda lagði hann sig virkilega fram um það að gerast Íslendingur.

Sigurður Demetz

Um miðjan sjöunda áratuginn lá leið Sigurðar Demetz norður yfir heiðar þar sem hann var ráðinn sem söngkennari við Tónlistarskólann á Akureyri. Á Akureyri gerði hann heilmikið fyrir norðlenskt sönglíf, hann stjórnaði um tíma Karlakórnum Geysi, stofnaði og stjórnaði sönghópnum MA félögum (einnig nefnt 24 MA félagar) innan Menntaskólans á Akureyri og átti einnig frumkvæði að því að stofna kór innan skólans, sem hann svo stjórnaði. Þá stofnaði hann einnig kvennakórinn Söngfélagið Gígjuna og raddþjálfaði þann kór, auk þess stjórnaði hann Lúðrasveit Akureyrar um tíma.

Undir lok áttunda áratugarins flutti Sigurður aftur suður til Reykjavíkur og hóf þá störf við Nýja söngskólann, sunnan heiða biðu fleiri tengd störf og kenndi hann meðal annars við tónlistarskólana í Mosfellssveit og Keflavík en á síðarnefnda staðnum stjórnaði hann einnig Karlakór Keflavíkur. Hann kenndi við Nýja söngskólann í ríflega áratug og þegar Söngskólinn Hjartansmál var stofnaður 1995 var hann þar með söngnámskeið og var einnig verndari skólans, hann kenndi við þann skóla allt þar til heilsan brast. Árið 1995 kom út ævisaga Sigurðar, skráð af Þór Jónssyni fréttamanni, undir titlinum Á valdi örlaganna.

Sigurður Demetz var óperusöngvari, kórstjórnandi og jafnvel laga- og textahöfundur þótt það færi ekki hátt en fyrst og fremst var hann söngkennari eftir hann kom hingað til lands. Óhætt er að segja að hann hafi kennt mörg hundruð söngnemum sem margir hverjir urðu þekktir beinlínis fyrir hans tilstuðlan, þannig má sérstaklega nefna söngvara eins og Kristján Jóhannsson en einnig þekkt nöfn eins og Ólaf Þ. Jónsson, Jón Sigurbjörnsson, Sigurveigu Hjaltested, Jóhönnu Linnet, Sigríði Ellu Magnúsdóttur, Már Magnússon, Gunnar Guðbjörnsson, Svölu Nielsen, Guðmund Guðjónsson, Hallveigu Rúnarsdóttur og Guðbjörn Guðbjörnsson auk margra annarra að sjálfsögðu.

Sigurður Demetz lést vorið 2006 á níutugasta og fimmta aldursári sínu. Hann hafði verið heiðraður með ýmsum hætti og má þar nefna fálkaorðuna hina íslensku og riddarakross ítalska ríkisins, hann var gerður að heiðursborgara í St. Ulrich / Ortisei fæðingarbæ sínum og að heiðursfélaga í Félagi íslenskra söngkennara. Þess má og geta að Söngskólinn Hjartansmál var endurnefndur eftir Sigurði og heitir í dag Söngskóli Sigurðar Demetz. Minningartónleikar voru jafnframt haldnir um Sigurð á aldarafmæli hans árið 2012.

Þótt ótrúlegt megi virðast er söng Sigurðar Demetz einungis að finna á einni útgefinni plötu eftir því sem best verður komist, það er platan Söngveisla: Ólafur Vignir Albertsson píanó og 43 söngvarar (2017).