Sigurður Reynir Pétursson (1921-2007)

Sigurður Reynir Pétursson

Sigurður Reynir Pétursson hæstaréttarlögmaður er líklega einn mikilvægasti liðsmaður tónlistamanna í höfundaréttindabaráttu þeirra á 20. öld en hann kom með margvíslegum hætti að félags- og réttindamálum þeirra.

Sigurður Reynir Pétursson var fæddur í Stykkishólmi 1921 og bjó þar fyrstu æviár sín en að loknu stúdentsprófi við MR og lögfræðiprófi við Háskóla Íslands hélt hann til Englands þar sem hann fór í framhaldsnám tengt höfundaréttarmálum. Sigurður kom heim að námi loknu, hóf störf sem hæstaréttarlögmaður, opnaði eigin stofu og var síðan framarlega í höfundaréttarmálum hérlendis og starfaði bæði fyrir tónlistarfólk og leikarastéttina.

Hann var lögfræðingur STEFs frá 1951 og svo framkvæmdastjóri samtakann um tuttugu ára skeið einnig, hann var lögmaður FÍH um tveggja áratuga skeið sem og Félags íslenskra leikara, og lögmaður og framkvæmdastjóri Sambands flytjenda og hljómplötuframleiðenda (SFH). Sigurður var lengi formaður Höfundaréttarfélags Íslands og kom einnig að félagsmálum tónlistarmanna með annars konar hætti, t.d. ritaði hann sögu STEFs (Þú skalt ekki stela) á hálfrar aldar afmæli samtakanna árið 1998.

Sigurður kom jafnframt að höfundaréttarmálum fyrir íslenska ríkið, bæði sem ráðgjafi við setningu laga og sem formaður höfundaréttarnefndar. Hann var sæmdur ýmsum viðurkenningum fyrir störf sín að réttindamálum og m.a. má nefna fálkaorðuna, hina sænsku Norðurstjörnu, gullmerki Félags íslenskra hljómlistarmanna (FÍH) og Félags íslenskra leikara. Þessar viðurkenningar bera augljós merki þeirrar virðingar sem hann naut meðal þeirra sem hann starfaði fyrir.

Sigurður lést sumarið 2007 en hann var þá á áttugasta og sjöunda aldursári.