Afmælisbörn 24. maí 2015

Bjarni Ómar

Bjarni Ómar Haraldsson

Afmælisbörn dagsins eru þrjú talsins í dag hjá Glatkistunni:

Kristján Jóhannsson tenórsöngvari er sextíu og sjö ára á þessum degi. Kristján hóf sinn söngferil fyrir norðan, nam söng fyrst á Akureyri en síðan í Reykjavík og á Ítalíu, þar sem hann starfaði um árabil en er nú fyrir nokkru fluttur heim til Íslands. Um tugur platna hefur komið út með söng Kristjáns síðan 1983 en hann hefur einnig sungið á plötum ýmissa annarra söngvara og kóra.

Bjarni Ómar Haraldsson söngvari og gítarleikari frá Raufarhöfn er fjörutíu og sex ára gamall í dag. Hann hefur starfað með ballhljómsveitum frá unga aldri, þar má nefna sveitir eins og Annexiu, Kokkteil, Antík og Sífrera en einnig hefur Bjarni Ómar gefið út tvær sólóplötur.

Lene Viderø söngkona Bag of joys sem margir muna eftir frá því fyrir aldamót, er þrjátíu og átta ára gömul í dag. Hún söng einnig á plötum Maus og Birgis Arnar Steinarssonar á sínum tíma en lítið hefur farið fyrir henni á söngsviðinu síðan.