Afmælisbörn 5. júní 2015

Guðmundur Ingólfsson

Guðmundur Ingólfsson

Í dag eru afmælisbörnin fjögur talsins:

Hallbjörn Hjartarson kántrísöngvari er áttræður í dag, hann gaf út á sínum tíma ellefu plötur sem flestar höfðu að geyma kántrítónlist en nokkur laga hans náðu vinsældum, s.s. Lukku Láki, Kántrýbær, Hundurinn Húgó og Hann er vinsæll og veit af því. Hann starfrækti einnig um árabil veitingastaðinn og útvarpsstöðina Kántrýbæ.

Haraldur Sigurðsson (Halli) söngvari er 73 ára gamall en hann er auðvitað kunnastur fyrir samstarf sitt við bróður sinn Ladda, og sem einn meðlima HLH flokksins. Margir muna eftir honum á plötunni Haraldur í Skrýpalandi en skrýplarnir gengu síðar undir nafninu strumpar. Halli var einnig í fjölmörgum hljómsveitum á árum áður og þar má telja sveitirnar Halli and the hobos, Faxar, Capella, Drekar, Trixon og Limbó.

Árni (Rafn Benediktsson) Elfar (1928-2009) átti einnig afmæli þennan dag en hann var afar fjölhæfur listamaður. Árni var sem tónlistarmaður fyrst og fremst píanóleikari en færri vita að hann lék einnig á básúnu í Sinfóníuhljómsveit Íslands í um þrjá áratugi. Hann starfrækti eigin hljómsveitir en lék einnig með sveitum eins og Hljómsveit Björns R. Einarssonar, Hljómsveit Ragnars Bjarnasonar, GÁG tríóinu og KK sextett svo einhverjar séu nefndar. Árni var einnig kunnur teiknari en hann vann einnig úr leir og skar út tré.

Að síðustu skal hér telja djasspíanistann Guðmund Ingólfsson (1939-1991) en hann átti líka þennan afmælisdag. Hann kom víða við í sinni sköpun, var lengi í ballhljómsveitum eins og GÓP & Helgu og Haukum en lék einnig með sveitum eins og Blúskompaníinu, Bob Magnússon group, Hljómsveit Jóns Páls Bjarnason og Hljómsveit Gunnars Ormslev, auk auðvitað Tríós Guðmundar Ingólfssonar sem lék svo eftirminnilega á plötunni Gling gló með Björku Guðmundsdóttur. Guðmundur gaf sjálfur út þrjár sólóplötur og var umdeildur m.a. fyrir djassað útgáfu sína af þjóðsöngnum sem heyrðist í kvikmyndinni Okkar á milli.