Afmælisbörn 1. nóvember 2015

Vilhjálmur Goði

Vilhjálmur Goði

Afmælisbörn dagsins hjá Glatkistunni að þessu sinni eru:

Jón Sigurbjörnsson söngvari, leikari og hestamaður er 93 ára í dag. Jón nam leiklist í Bandaríkjunum og samhliða því lærði hann söng. Hann hélt áfram söngnámi á Ítalíu og hér heima en vann þó fyrst og fremst í leiklistinni. Söng hans má heyra á fjölmörgum plötum, mörgum með tónlist úr leikhúsinu en einnig þar sem hann syngur t.a.m. einsöng með Karlakór Reykjavíkur. Tvær sólóplötur hafa komið út með Jóni.

Arthur (Ross) Moon bassaleikari er sjötíu og tveggja ára. Arthur var lengst af bassaleikari Lúdó og Stefáns en lék einnig með hljómsveitum eins og Falcon og Rondó tríó auk þess að starfrækja eigin sveit, Tríó Arthurs Moon.

Vilhjálmur Goði Friðriksson Brekkan söngvari og gítarleikari er 43 ára. Hann var á sínum tíma í hljómsveitum eins og Bleeding Volcano, Tríói Jóns Leifssonar, Buffi, Todmobile, Kizz o.fl. og kom einnig við sögu á sviði í söngleikjum s.s. Súperstar, Hárinu og Grease.

Ólafur Guðmundsson (f. 1952) söngvari og gítarleikari BG & Ingibjargar frá Ísafirði hefði ennfremur átt afmæli þennan dag en hann lést 1986. Ólafur var einnig fyrsti söngvari hljómsveitarinnar Grafíkur.