Afmælisbörn 17. nóvember 2015

Emmsjé Gauti

Emmsjé Gauti

Afmælisbarn dagsins eru tvö að þessu sinni á skrá Glatkistunnar:

Gauti Þeyr Másson rappari (Emmsjé Gauti / MC Gauti) er tuttugu og sex ára gamall á þessum degi en hann hefur verið í rappeldlínunni síðan 2002 þegar hann birtist í Rímnaflæði aðeins þrettán ára gamall, hann hefur verið í sveitum eins og 32C og starfað með mörgum öðrum röppurum eins og títt er um þá. Emmsjé Gauti hefur gefið út tvær plötur en lagið Strákarnir af væntanlegri þriðju plötu hefur fengið að hljóma mikið undanfarið og notið mikilla vinsælda. Hann var einn af þeim sem kom fram á Iceland Airwaves fyrir stuttu.

Ásgeir Bragason trommuleikari hefði orðið fimmtíu og sex ára í dag en hann lést fyrr í haust langt fyrir aldur fram. Ásgeir vakti mikla athygli í pönksenunni upp úr 1980 með hljómsveitinni Purrki Pillnikk sem var öflug í tónleikhaldi og plötuútgáfu, en síðar var hann um lengri og skemmri tíma í sveitum eins og Puppets, Deild 1 og Egó.