Afmælisbörn 17. nóvember 2017

Jónas R. Jónsson

Afmælisbörn dagsins eru fjögur að þessu sinni:

Gauti Þeyr Másson rappari (Emmsjé Gauti / MC Gauti) er tuttugu og átta ára gamall á þessum degi en hann hefur verið í rappeldlínunni síðan 2002 þegar hann birtist í Rímnaflæði aðeins þrettán ára gamall, hann hefur verið í sveitum eins og 32C og starfað með mörgum öðrum röppurum eins og títt er um þá. Emmsjé Gauti hefur gefið út fjórar plötur og hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár.

Ásgeir Bragason trommuleikari hefði orðið fimmtíu og átta ára í dag en hann lést fyrir tveimur árum langt fyrir aldur fram. Ásgeir vakti mikla athygli í pönksenunni upp úr 1980 með hljómsveitinni Purrki Pillnikk sem var öflug í tónleikhaldi og plötuútgáfu, en síðar var hann um lengri og skemmri tíma í sveitum eins og Puppets, Deild 1 og Egó.

Jónas R. Jónsson söngvari og flautuleikari er sextíu og níu ára gamall í dag. Jónas fór mikinn í íslensku tónlistarlífi um 1970 og söng þá í sveitum eins og Flowers, þar sem Slappaðu af og Glugginn voru hans þekktustu lög, hann söng einnig með hljómsveitunum Náttúru, Brimkló, Toxic og 5 pence auk þess sem hann sendi frá sér eina tveggja laga plötu 1972 og breiðskífu ásamt Einari Vilberg sama ár. Hann hefur aukinheldur fengist við upptökur og fiðlusmíði.

Að síðustu má geta þess að Karl Roth á stórafmæli dagsins en hann er sextugur. Karl var í hljómsveitinni Melchior á sínum tíma og lék þar á hin ýmsu hljóðfæri á plötum sveitarinnar. Hann hefur einnig komið við sögu á plötum Hilmars Oddssonar og á að baki sjálfur eina sólóplötu sem kom út þegar hann var átján ára gamall en sú plata er sjaldgæf og verðmæt í augum safnara.