Afmælisbörn 16. nóvember 2017

Oddgeir Kristjánsson

Afmælisbörn dagsins eru fjögur, öll nema eitt þeirra eru farin yfir móðuna miklu:

(Vilborg) Ása Dýradóttir bassaleikari hljómsveitarinnar Mammút er tuttugu og níu ára gömul á þessum degi. Eins og margir muna sigraði Mammút Músíktilraunir Tónabæjar og Hins hússins vorið 2004 og hefur síðan gefið út fjórar breiðskífur, þá síðustu fyrr á þessu ári.

Næsta afmælisbarn, Jónas Hallgrímsson (1807-45) er eitt af þjóðskáldunum, allir þekkja og hafa sungið lög við ljóð og ljóðaþýðingar hans s.s. Álfareiðin (Stóð ég úti í tunglsljósi), Vísur Íslendinga (Hvað er svo glatt) og Ég bið að heilsa (Nú andar suðrið). Það er engin tilviljun að dagur íslenskrar tungu hefur verið haldinn hátíðlegur á afmælisdegi Jónasar frá árinu 1996.

Oddgeir Kristjánsson tónlistarfrömuður og tónskáld úr Vestmannaeyjum (1911-1966) er hvað þekktastur fyrir Eyjalögin sín en hann var einnig tónlistarmaður, tónlistarkennari og kórstjórnandi svo dæmi séu tekin. Meðal laga sem Oddgeir samdi eru Ég veit þú kemur, Ship-o-hoj og Bjartar vonir vakna sem flestir þekkja, Oddgeir stofnaði einnig og stjórnaði Lúðrasveit Vestmannaeyja.

Jóhann Konráðsson (Jói Konn) söngvari (1917-82) hefði einnig átt afmæli, hann söng í Smárakvartettnum, karlakórnum Geysi og víðar, og er söng hans að finna á fjölmörgum plötum sem komið hafa út. Af Jóhanni eru komnir miklir söngvarar.