Karl J. Sighvatsson (1950-91)

Karl J. Sighvatsson1

Karl J. Sighvatsson

Karl Jóhann Sighvatsson (Kalli Sighvats) tónlistarmaður er án efa þekktasti Hammond-orgelleikari íslenskrar tónlistarsögu og kom hann við sögu í fjölmörgum hljómsveitum á tímum bítla og hippa. Hann féll frá rétt liðlega fertugur að aldri.

Karl fæddist 1950 á Akranesi, þar sleit hann barnsskónum og bjó til fimmtán ára aldurs. Hann fékk snemma áhuga á hvers kyns hljóðfæraleik og hafði ungur lært á einhver blásturshljóðfæri en hann lék með lúðrasveit á Skaganum. Karl lærði hjá Hauki Guðlaugssyni í upphafi en síðar hjá kennurum eins og Margréti Eiríksdóttur, Rögnvaldi Sigurjónssyni og Þorkeli Sigurbjörnssyni.

Karl lærði einnig á píanó og lék á bassa í skólahljómsveitum frá tíu ára aldri en fyrsta alvörugigg Karls var þegar hann lék með Dúmbó sextettnum aðeins þrettán ára gamall. Hann mun einnig eitthvað hafa verið í hljómsveitum í Reykholti þar sem hann var við nám á unglingsárunum.

Orgelið varð fljótlega aðalhljóðfæri Karls og náði hann mikilli leikni á hljóðfærið, svo eftir var tekið. Hammond fjölskyldan varð fyrir valinu og var ekki aftur snúið en æ síðan var hann kallaður konungur Hammond-orgelanna. Þess má geta að hann var titlaður Hammond Islandus í blaðagrein sem tengdist andláti hans 1991.

Þegar Karl flutti á höfuðborgarsvæðið um 1965 fór fljótlega að kveða að honum á tónlistarsviðinu þótt ekki væri hann ýkja gamall. Árið 1966 gekk hann til liðs við Tóna og lék m.a. með þeirri sveit á frægum tónleikum í Austurbæjarbíói þegar ólæti unglinga urðu blaðamönnum og felmtri slegnum foreldrum tilefni blaðaskrifa um hvernig æsku landsins væri nú komið og hvernig mætti bregast við.

Það varð snemma einkenni á ferli Karls hversu stutt hann staldraði við í hverju verkefni og rótleysi virtist honum í blóð borið. Hann var ekki lengi í Tónum og var hljómsveit sem þá hafði þegar slegið í gegn, Dátar næst á vegi hans vorið 1967. Sú sveit með Rúnar Gunnarsson söngvara í broddi fylkingar naut mikilla vinsælda og kom reyndar Karli á tónlistarkortið sem eins af efnilegustu hljómborðsleikurum landsins. Það kom því ekki á óvart að þegar hann sagði skilið við sveitina sama haust, fjaraði undan Dátum.

Karl J. Sighvatsson2

Karl með Trúbrot á Saltstokk ’71

Karl stofnaði þá ásamt öðrum (s.s. yngri bróður sínum Sigurjóni Sighvatssyni) hljómsveitina Flowers sem ásamt fyrrnefndum Dátum (og Hljómum) teljast til samnefndara bítlatónlistar á Íslandi. Flowers slógu í gegn rétt eins og Dátar og þar kvað Karl sér hljóðs sem lagahöfundur í fyrsta skipti þegar fjögurra laga plata sveitarinnar kom út 1968, en hann samdi tvö af fjórum lögum sveitarinnar. Einnig varð hann nú þekktur sem útsetjari en sveitin flutti m.a. á tónleikum Pílagrímskórinn úr Tannhäuser eftir Wagner í útsetningu hans, en þegar til stóð að flytja verkið í útvarpi sagði útvarpsstjóri nei.

Flowers starfaði til vors 1969 þegar súpergrúppan Trúbrot var stofnuð upp úr henni og Hljómum en Karl hafði þá komist á stall sem færasti hljómborðs- og orgelleikari samtímans í poppinu. Vera Karls í Trúbrot var ekki samfleytt og hann hætti í sveitinni sumarið 1970, hann kom þó aftur inn í upphafi árs 1971 og vann með sveitinni að stórvirkinu …lifun en hætti síðan aftur um sumarið.

Minna fór fyrir Karli á tónlistarsviðinu í kjölfarið, hann lék með sýruhljómsveitinni Frugg um tíma og sú sveit flutti meðal annars tónverkið Hallgrímur kvað… eftir Karl, og fljótlega eftir það gekk hann til liðs við hljómsveitina Náttúru sem þá hafði verið starfandi í nokkurn tíma en með þeirri sveit kom hann að uppfærslu á söngleiknum Jesus Christ superstar sem settur var á fjalirnar 1973.

Eftir að Náttúra hætti störfum 1973 dró Karl sig nokkuð í hlé um tíma, hann fluttist austur í Hveragerði þar sem hann starfaði við heilsuhælið þar í bæ en söðlaði síðan um og fór þaðan til Austurríkis í tónlistarnám og var þar næstu árin, fyrst í Vín en síðan Salzburg í orgelnám.

KArl J. Sighvatsson

Karl á áttunda áratugnum

Eðlilega fór lítið fyrir Karli hér heima um það leyti en þegar hann fluttist aftur heim á norðurslóðir 1975 fór að kveða nokkuð að honum á nýjan leik þótt í öðru formi væri. Hann starfaði nú meira í hljóðverum, stjórnaði upptökum og útsetti auk þess að spila á plötum ýmissa listamanna og hljómsveita. Hann lék m.a. á plötum Ríó tríósins, Heimavarnarliðsins, Lítið eitt, Sigrúnu Harðardóttur, Spilverks þjóðanna & Megasar, Olgu Guðrúnar Árnadótur, Pal brothers, Mannakornum og Randvers svo fáein dæmi séu tekin, og einnig á plötum Þokkabótar en hann varð reyndar meðlimur þeirrar sveitar um tíma.

Veturinn 1977-78 reri Karl á algjörlega ný mið þegar hann fluttist austur á Neskaupstað og starfaði þar sem organisti, þar sinnti hann líklega einnig tónlistarkennslu en þegar hann kom aftur á höfuðborgarsvæðið kom hann aftur í sviðsljósið sem hann hafði verið utan í mörg ár, þegar hann gekk til liðs við Þursaflokkinn með Hammond orgelið sitt.

Karl starfaði með þeirri sveit til 1981 samhliða öðrum verkefnum en hann var þá störfum hlaðinn í hljóðverum sem fyrr. Hann starfaði þó á þeim tíma einnig í hljómsveitunum Reykjavík rhythm section, Mannakornum og Blúskompaníinu þegar það starfaði.

1981 fór Karl aftur til náms erlendis en í þetta skiptið til Boston í Bandaríkjunum. Þar nam hann m.a. tónsmíðar en hann lauk námi sínum 1986. Þá kom hann heim til Íslands en fluttist vestur í Bolungarvík þar sem hann sinnti starfi organista um tíma og hugsanlega einnig tónlistarkennslu.

KArl J. Sighvatsson og Herbie Hancock

Karl ásamt Herbie Hancock í Bandaríkjunum 1986

Karl var ekki lengi vestra og fluttist aftur suður enda kallaði hljóðversvinnan og henni gat hann eðlilega ekki sinnt á Vestfjörðum. Hann starfaði nú í hljóðveri með hljómsveitum og tónlistarmönnum á borð við Stjórnina, Síðan skein sól, Strax, Bítlavinafélaginu, Bubba Morthens og Eiríki Haukssyni og lék á plötum þeirra.

Hann fluttist nú aftur austur í Ölfus þar sem hann hafði verið á fyrri hluta áttunda áratugarins, þar stjórnaði hann Kirkjukór Hveragerðis og Kotstrandarsóknar og Söngfélagi Þorlákshafnar en var einnig organisti við fimm kirkjur í héraðinu. Hann var ennfremur um stutt skeið stjórnandi Kórs Fjölbrautaskóla Suðurlands á Selfossi.

Karl lék ekki mikið með hljómsveitum á þessum síðari árum en starfrækti þó eigin hljómsveit, Blúsband Kalla Sighvats sem lék blústónlist við hátíðleg tækifæri.

Karl bjó austur í Hveragerði sumarið 1991 þegar hann lést í bílslysi neðan við skíðaskálann í Hveradölum á leið til Reykjavíkur. Hann var þá rétt fertugur að aldri.

Minningartónleikar undir yfirskriftinni Karlsvaka voru haldnir, fyrst 1991, og reglulega síðan, þar sem fjöldi tónlistarmanna og hljómsveita hafa heiðrað minningu Karls. Einnig var minningarsjóður stofnaður í minningu hans, ætlaður til að styrkja unga og efnilega orgelleikara, og hefur verið veitt úr þeim sjóði með reglulegu millibili.

Karl J. Sighvatsson 1991

Kalli Sighvats 1991, hugsanlega ein síðasta myndin sem tekin var af honum

Plata með upptökum frá minningartónleikunum um Karl 1991 voru gefnið út árið 1992. Á þeirri plötu koma ýmsir þekktir tónlistarmenn og hljómsveitir við sögu.

Karl kom miklu víðar við í tónlist sinni en hér er upp talið, hann samdi til að mynda heilmikið af þeirri tónlist sem hljómsveitir hans gáfu út en einnig tónlist fyrir leikhús og kvikmyndir, þar má nefna myndirnar Atómstöðina, Nýtt líf og Dalalíf. Hann var einnig á einhverjum tíma organisti við Landakotskirkju og í Breiðholtinu, hvenær nákvæmlega er ekki ljóst. Karl kom ennfremur að stofnun SATT-samtakanna, Samband alþýðutónskálda og tónlistarmanna, og sat í stjórn þeirra í upphafi.

Svo lesendur geri sér betur grein fyrir hlut Karls J. Sighvatssonar í íslenskri tónlist má hér nefna nokkur lög sem hann hefur komið við sögu í; Starlight og Án þín með Trúbrot, Slappaðu af og Glugginn með Flowers, Litlir sætir strákar með Megasi, Brúðkaupsvísur með Þursaflokknum, Reyndu aftur með Mannakornum, Rækjureggae (ha ha ha) með Utangarðsmönnum, Yackety yack, smackety smack með Magnúsi og Jóhnani og Saga úr sveitinni með Megasi og Spilverki þjóðanna.

Efni á plötum