Afmælisbörn 20. desember 2015

Jóhann á Ormarslóni

Jóhann Jósefsson frá Ormarslóni

Tvö afmælisbörn eru á skrá Glatkistunnar að þessu sinni:

Hafnfirðingurinn Stefán Hjörleifsson gítarleikari Nýdanskrar er fimmtíu og eins árs gamall í dag. Stefán hóf sinn tónlistarferil í heimabænum og var í hljómsveitinni Herramönnum ungur að árum. Á menntaskólaárum sínum gaf hann út plötuna Morgundagurinn sem hafði að geyma lög úr stuttmynd en síðan hefur hann verið í mörgum hljómsveitum s.s. Bringuhárunum, Töfraflautunni, Fjórum piltum af Grundarstíg, Toppmönnum, Possibillies, Bítlavinafélaginu og áðurnefndri Nýdanskri. Það þarf varla að taka fram að hann hefur leikið inn á fjöldann allan af plötum. Stefán var einn þeirra sem stofnaði til Íslensku tónlistarverðlaunanna og hann er einnig stofnandi vefsíðunnar Tónlist.is.

Einnig hefði átt afmæli á þessum degi Jóhann Óskar Jósefsson (1911-2004) harmonikkuleikari frá Ormarslóni í Þistilfirði. Jóhann lék víða á böllum ásamt bróður sínum undir nafninu Ormarslónsbræður en var einnig einn á ferð með nikkuna. Jóhann kenndi tónlist við tónlistarskólana á Raufarhöfn og Þórshöfn. Hann var fyrstur á Íslandi til að leika danstónlist á plötu þegar hann lék ásamt hljómsveit Poul Bernburg árið 1933, þá lék hann einnig einleik á harmonikku fyrstur Íslendinga á plötu.