Janis Carol (1948-)

Janis Carol

Janis Carol í kringum 1965

Janis Carol er ekki íslensk söngkona en hún bjó hér og starfaði um árabil og var aukinheldur ein af tengdadætrum Íslands. Hún er enn að.

Janis Carol (Walker) fæddist 1948 í Bretlandi en fluttist til Íslands sex ára gömul eftir að foreldrar hennar skildu og móðir hennar kom til Hafnarfjarðar en hún kynntist íslenskum manni í pennavinasambandi. Systir Janis, Linda Walker var með í för en hún átti einnig eftir að starfa við söng.

Janis (oft kölluð Jana) var aðeins sextán ára gömul þegar hún fór að vekja athygli fyrir sönghæfileika sína, þá birtist hún með Hljómsveit Guðjóns Pálssonar á Hótel Borg snemma á árinu 1965. Síðar sama ár var hún farin að syngja með Ó.B. kvartett í Glæsibæ og Hljómsveit Björns R. Einarssonar nokkru síðar, enn sem komið var hafði Janis ekki sungið með bítlasveitum sem þá voru að skjóta upp kollinum hvarvetna. Í kjölfarið fór fremur lítið fyrir henni en þá mun hún hafa sungið með hljómsveitum uppi á Vellinum, hvaða sveitum liggur ekki fyrir.

Það var síðan um vorið 1970 sem Janis skaut upp kollinum á nýjan leik tuttugu og tveggja ára gömul. Hún söng lítillega með hljómsveitinni Mods áður en hún gekk til liðs við Tatara sem þá hafði nýverið gefið út litla plötu. Vera hennar í Töturum varð þó mun styttri en ætlað var en um haustið fékk hún raddbandabólgu sem varð til að hún varð að taka sér hlé frá öllum söng.

Á þeim stutta tíma sem hún starfaði með sveitinni náðist þó að taka upp sjónvarpsþátt þar sem hún söng með Töturum en sá þáttur var sýndur í Ríkissjónvarpinu síðar um haustið. Það var fyrsti sjónvarpsþátturinn af mörgum sem Janis kom fram í hér á landi.

Janis Carol1

Janis Carol

Þarna var Janis komin í hringiðu íslensks tónlistarlífs sem þá stóð í nokkrum blóma, og í kjölfarið vann hún tveggja laga plötu þar sem hún söng lög Einars Vilberg. Platan hlaut ágætar viðtökur gagnrýnenda, plöturýnir Vikunnar gaf henni góða dóma og í Morgunblaðinu og Vísi fékk hún einnig þokkalega dóma.

Eftir þessa plötuútgáfu var Janis áberandi í þeirri söngleikjavakningu sem hér varð næstu misserin. Hún tók þátt í uppfærslum á Hárinu og síðar Jesús Kristi Súperstar, og söngflokkurinn Nunnurnar þar sem hún söng ásamt Drífu Kristjánsdóttur og Helgu Steinsson varð til upp úr söngleikjasamstarfi þeirra. Nunnurnar voru byrjaðar að vinna plötu undir merkjum SG-hljómplatna en af einhverjum ástæðum kom sú plata aldrei út, tvö laganna komu hins vegar út á safnplötunni Hrif 2 1976 en um það leyti var Janis að flytjast erlendis.

Janis varð aldrei stórstjarna í íslensku tónlistarlífi og líklega má fyrst og fremst stíla það á óheppni, hún söng til að mynda aldrei með hljómsveitum sem gáfu út plötur meðan hún starfaði með þeim, t.d. var hún í Uncle John‘s band og Lísu sem báðar voru undanfarar hljómsveitarinnar Mannakorna, sem vel að merkja gaf út fyrstu plötuna sína 1976. Janis kom þó lítillega við sögu þeirrar plötu við röddun sem og plötu sem kom út með Eik, og einnig söng hún á plötu um Róbert bangsa sem kom út 1975. Hún söng á þessum tíma ennfremur með Hljómsveit Árna Ísleifs á Hótel Borg ásamt Lindu systur sinni og í blaðaviðtali segist hún einnig hafa sungið um þetta leyti með hljómsveit sem gekk undir heitinu Sony, engar heimildir finnast hins vegar um þá sveit.

1976 hófst alveg nýr kafli í lífi Janisar Carol en þá stofnaði hún ásamt eiginmanni sínum og fleirum hljómsveitina Lava. Þeim fannst starfsvettvangurinn hér heima eitthvað erfiður og tóku þann pól í hæðina að reyna fyrir sér í Svíþjóð. Lava starfaði næstu tvö árin þar í landi og mun Janis hafa gefið út tveggja laga plötu í landinu en þrátt fyrir eftirgrennslan finnast engar upplýsingar um þá plötu. Annað laganna mun hafa skorað nokkuð hátt á sænskum vinsældalista og í kjölfarið gerði hún það gott í hæfileikakeppni. Ekki varð meira um útgáfu í Svíþjóð því plötuútgáfan varð gjaldþrota og varð eftirfylgnin eftir smáskífuna eftir því.

Janis Carol 1970

Janis árið 1970

Um það leyti sem Lava var að líða undir lok kom sveitin hingað til lands og lék hér í nokkur skipti sumarið 1978 en í kjölfarið fluttust þau hjónin til Bretlands, sem auðvitað var heimaland Janisar þótt hún hefði ekki búið þar síðan hún var barn að aldri. Á þeim var Janis farin að ganga undir nafninu Carol Nielsson en skýringuna á því má finna á því að nafn eiginmanns hennar var Ingvar Árelíusson og erfitt hefði verið fyrir Bretana að nota eftirnafnið Árelíusson, lendingin var því að Janis tók upp eftirnafn tengdaföður síns, sr. Árelíusar Níelssonar og kallaði sig því Carol Nielsson.

Í Bretlandi náði söngleikjaferill Janisar hámarki en á næstu árum skóp hún sér heilmikið nafn í þeim geiranum, fyrst tók hún þátt í vinsælli uppfærslu á Evitu (ásamt Lindu systur sinni) og í kjölfarið tóku við söngleikir eins og Song & dance, Jesus Christ Superstar og Cats, þar sem hún vann m.a. með Andrew Lloyd Webber og fleirum.

Janis kom í raun miklu víðar við í Bretlandi á meðan hún var að reyna að koma sér á framfæri, hún starfaði með hljómsveit sem þó gekk illa koma sér á framfæri og meðal samstarfsmanna hennar um tíma var sjónvarpsmaðurinn Freddie Starr (sem síðar var dæmdur fyrir barnaníð ásamt Jimmy Savile o.fl.). Hún söng ennfremur alloft í útvarpi með Sinfóníuhljómsveit BBC en leikhúsið var fyrst og fremst hennar vettvangur.

Söngkonan kom reglulega „heim“ til Íslands og söng hér, hún tók t.d. í uppfærslu Þjóðleikhússins á Chicago 1985 en söng einnig á hótelum borgarinnar m.a. með Hljómsveit Magnúsar Kjartanssonar, Jónasi Þóri o.fl. Ári síðar söng hún inn á plötu Sverris Stormskers, Lífsleiðin(n).

Um 1990 hætti Janis að syngja opinberlega og tuttugu ár liðu þar til næst heyrðist til hennar, hún fluttist til Bandaríkjanna en kom til Íslands reglulega án þess þó að syngja.

Það var ekki fyrr en um 2010 að Janis tók upp þráðinn á nýjan leik, þá vestan hafs. Og tveimur árum síðar kom út platan Here‘s to love, en lítið fór fyrir þeirri útgáfu hér á landi, söngkonan hefur þó komið til Ísland hin síðustu ár, verið hér með annan fótinn og sungið eitthvað fyrir landann eins og hún gerði oft áður. Meðal annars kom hún fram ásamt systur sinni, Lindu Walker undir nafninu Fjarðarsystur en þær höfðu þá ekki sungið saman í áratugi.

Efni á plötum