Jakob Ó. Jónsson (1940-2021)

Jakob Ó. Jónsson söngvari

Jakob Ó. Jónsson

Nafn söngvarans Jakobs Ó. Jónssonar er ekki endilega meðal þeirra þekktustu en hann hann söng samt sem áður opinberlega með hljómsveitum sínum í yfir hálfa öld, með fáum og stuttum hléum.

Jakob (Óskar) Jónsson (fæddur 1940) byrjaði að leika og syngja með danshljómsveitum fyrir helbera tilviljun en þegar bakmeiðsli urðu til þess að hann varð að hætta íþróttaiðkun þegar hann var um átján ára gamall, keypti hann og lærði á trompet. Í kjölfarið hófst söngferill hans.

Fyrsta hljómsveitin sem hann starfaði með var í Reykjavík (líklega nafnlaus) en haustið 1959 hóf hann að syngja með rangæskri hljómsveit að nafni Echo. Með þeirri sveit söng hann víða um Suðurlandið næstu tvö árin en svo tóku við önnur tvö ár með Hljómsveit Óskars Guðmundssonar á Selfossi en sú sveit var með allra vinsælustu ballhljómsveitum þeirra tíma. Þess má geta að sveitinni bauðst að syngja inn á tólf laga plötu meðan hann söng með henni en þar sem Jakob komst ekki frá starfs síns vegna (en upptökurnar hefðu farið fram erlendis) urðu þeir félagar að afþakka boðið. Þar með hefur söngur Jakobs aldrei verið festur á plötu, þótt fleiri tækifæri hafi reyndar gefist síðar.

1963 var Jakob kominn á höfuðborgarsvæðið og farinn að syngja með Hljómsveit Andrésar Ingólfssonar, um það leyti söng hann einnig lítillega með Lúdó sextett (líklega í afleysingum), og Hljómsveit Jóns Páls Bjarnason. Þarna var hann kominn á fullt í danshljómsveitalífið á höfuðborgarsvæðinu og lék mestmegnis á stöðum eins og Röðli, Þórscafé, Glæsibæ og öðrum þess konar dansstöðum. Hljómsveit Þorsteins Eiríksson (Steina Krúpu) varð næst í röðinni en einnig söng hann um stuttan tíma í sveitum eins og Tónatríóinu og Hljómsveit Jónasar Dagbjartssonar.

Svo var álagið orðið mikið 1968 að Jakob þurfti að taka sér hlé frá tónlistinni vegna magasárs en á sama tíma vann hann fullan vinnudag að auki. Hann sneri þó aftur á ballmarkaðinn fáeinum árum síðar (1970) og þá með eigin sveit en hann starfrækti hljómsveitir í eigin nafni lengi vel, söng reyndar einnig eitthvað lítillega með Gosum 1971.

Hljómsveit Jakobs Ó. Jónssonar starfaði til 1978 með einhverjum hléum þó, en tveimur árum síðar eftir að hafa tekið sjálfan sig í gegn mætti hann aftur á ballsviðið með nýja Hljómsveit Jakobs Ó. Jónssonar. Sú sveit fór tveimur áratugum síðar í gegnum nafnabreytingu og kallaðist Grái fiðringurinn eftir það, hún starfaði til ársins 2014 þegar hún hætti störfum og lauk Jakob þar með söngferli sínum sem spannað hafði um fjörutíu og fimm ár.

Þess má geta að eiginkona Jakobs var Didda (Jónína Karlsdóttir) sem þekktust er fyrir rokkdansa sína með Sæma Rokk (Sæmundi Pálssyni) á sjötta og sjöunda áratug síðustu aldar.

Jakob lést haustið 2021.