Páll Kr. Pálsson (1912-93)

Páll Kr. Pálsson 1948

Páll Kr. Pálsson 1948

Páll Kr. Pálsson kom víða við á sínum ferli, hann var kórstjórnandi, tónlistarkennari og -skólastjóri, organisti og undirleikari auk þess að koma að félagsmálum tónlistarmanna á Íslandi með ýmsum hætti.

Páll (Kristinn) fæddist 1912 í Reykjavík og bjó þar fram á fullorðinsár. Hann var músíkalskur með eindæmum og mun hafa verið farinn að spila á orgel eftir eyranu um fjögurra ára aldur eða um það leyti sem hann náði upp á nótnaborðið.

Tónlist var í hávegum höfð á æskuheimili Páls og lá beinast við að hann lærði á eitthvert hljóðfæri, svo fór að hann hóf að læra á píanó og síðan orgel auk tónfræðináms, fyrst hjá einkakennara og síðan við Tónlistarskólann í Reykjavík sem stofnaður var 1930.

Páll fór síðan 1946 til framhaldsnáms til Svíþjóðar og Danmerkur áður en hann hélt til Skotlands þar sem hann nam í tvö ár auk orgelleiks, kórstjórnun og tónsmíðar.

Fyrst í stað eftir heimkomuna bjó Páll í Reykjavík en um 1950 flutti hann til Hafnarfjarðar og bjó þar æ síðan. Eftir að heim var komið má segja að fyrst hafi ferill Páls hafist fyrir alvöru, hann var auðvitað þekktastur sem undirleikari og organisti en hann kom að mörgum öðrum þáttum tónlistarinnar.

Páll stýrði t.a.m. fjölmörgum kórum um lengri og skemmri tíma, þar má nefna blandaða kóra eins og Samkór Kópavogs, Samkór Reykjavíkur og kirkjukóra Hafnarfjarðar-, Kálfatjarnar- og Bessastaðakirkna en hann var jafnfram organisti við kirkjurnar þrjár, ennfremur má nefna karlakóra eins og Lögreglukór Reykjavíkur og Karlakórinn Þresti í Hafnarfirði. Þá eru ótaldir Kvennakór Garðahrepps (Garðabæjar) sem hann stjórnaði einnig og Barnakór Útvarpsins sem starfaði um tveggja ára skeið.

Páll Kr. Pálsson

Páll Kr. Pálsson

Kennslu sinnti Páll ennfremur alla tíð, hann kenndi við Tónlistarskólann í Reykjavík, Tónskóla Þjóðkirkjunnar, kenndi guðfræðinemum við Háskóla Íslands orgelleik sem og kennaranemum við Kennaraháskóla Íslands. Þegar hann flutti til Hafnarfjarðar gerðist hann skólastjóri nýstofnaðs Tónlistarskólans í Hafnarfirði en hann hafði sjálfur frumkvæði að stofnun hans, hann var einnig í forystu fyrir stofnun Drengjalúðrasveitar Hafnarfjarðar um svipað leyti.

Páll varð fyrsti formaður Félags íslenskra organista og gegndi því embætti um árabil, félagið gerði hann síðar að heiðurfélaga enda var hann án nokkurs vafa meðal fremstu organista á Íslandi, í minningargrein eftir hann látinn var hann m.a. kallaður einn af frumherjum íslenskrar organistastéttar.

Páll ritaði aukinheldur nokkur rit, Handbók söngkennara, Ágrip af tónlistarsögu fyrir miðskóla, Tónfræði fyrir miðskóla, Barnasöngvar: 30 lög samantekin og raddsett við ljóð eftir Stefán Jónsson, Söngbók IOGT og Tónlistarsaga eru allt bækur sem hann ýmist ritaði eða ritstýrði. Það voru því margir þættir í íslensku tónlistarlífi sem Páll kom að því til eflingar, og því þarf ekki að koma á óvart að hann hlaut Hina íslensku fálkaorðu.

Þegar Páll varð sjötugur kom út tvöföld plata á vegum SG-hljómplatna en á henni var að finna upptökur úr fórum Ríkisútvarpsins frá ýmsum tíma þar sem Páll lék orgelverk eftir íslensk og erlend tónskáld. Platan hlaut nafnið Páll Kr. Pálsson leikur á orgel og fékk ágæta dóma í tveimur plötuumfjöllunum sem birtust í Morgunblaðinu. Platan var síðar endurútgefin eitthvað aukin af efni.

Páll lést 1993 eftir nokkurra ára baráttu við Parkinsons sjúkdóminn.

Efni á plötum