Afmælisbörn 23. október 2016

Skúli Sverrisson

Skúli Sverrisson

Tvö afmælisbörn koma við sögu Glatkistunnar að þessu sinni:

Jón Hjörleifur Jónsson tenórsöngvari er níutíu og þriggja ára. Þótt Jón hafi gegnt ýmsum tónlistartengdum störfum í gegnum tíðina, t.d. sem stjórnandi Karlakórs Akureyrar og Kirkjukórs Hveragerðis og Kotstrandarsókna þá var hann orðinn áttræður þegar út kom plata með söng hans en það voru vinir og fyrrverandi nemendur sem stóðu að þeirri  útgáfu. Á þeirri plötu, sem hét Í bjarma trúar, söng Jón við undirleik Sólveigar Árnadóttur eiginkonu sinnar.

Skúli Sverrisson bassaleikari er fimmtugur og á því stórafmæli dagsins. Hann hefur starfað og verið með annan fótinn í Bandaríkjunum síðustu árin og gefið út fjöldann allan af sólóplötum frá árunum 1997 en á árum áður starfaði hann í hljómsveitum eins og Pax Vobis, Gömmum og Smartbandinu. Skúli hefur einkum verið djasstengdur, unnið með tónlistarfólki eins og Óskari Guðjónssyni, Jóel Pálssyni, Ólöfu Arnalds og Hilmari Jenssyni, og leikið á plötum margra tónlistarmanna.