Tónlistarmaðurinn Dölli hefur nú sent frá sér nýja plötu á rafrænu formi en hún ber heitið „Illur heimur“. Það er Syntadelia records sem hefur veg og vanda af útgáfunni en platan kom út á föstudaginn, hún verður síðan komin á Spotify og fleiri streymisveitur fljótlega.
Með útgáfu plötunnar, sem inniheldur fimmtán óþægilegar heimsósómaádeilur, vill Dölli hleypa af stað vitundarvakningu í stað byltingar til að bjarga heiminum og þess vegna verður plötunni dreift ókeypis.
Dölli hefur verið afkastamikill undanfarin tvö ár en fyrr á árinu kom út platan „Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum“, og í fyrra plöturnar „Guðjón missti af lestinni“ og „Viltu vera memm?“, síðast nefnda platan er barnaplata. Enn ein platan með Dölla er svo væntanleg á næsta ári.