Tilraun til að bjarga heiminum

Dölli – Illur heimur
[án útgáfunúmers], 2016
ein og hálf stjarna

dolli-illur-heimurTónlistarmaðurinn Dölli eða Sölvi Jónsson hefur vakið nokkra athygli fyrir tónlist sína en hann hefur verið afkastamikill um það bil síðasta eina og hálfa árið, fyrst með plötunni Guðjón missti af lestinni, síðan barnaplötunni Viltu vera memm?, þá Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum og nú fjórðu plötunni Illur heimur, sem kom út nú fyrr í haust og er hér til umræðu.

Fyrr á árinu birtist hér á síðunni umfjöllun um Ó hve unaðslegt…, og var margt gott við þá plötu að mati undirritaðs – þar munaði mestu um að hann skyldi láta vaða með berstrípaðar laglínur án nokkurra skreytinga og án þess beinlínis að vera besti söngvari eða gítarleikari í heimi. Platan var ferskt innlegg í íslensku tónlistarflóruna og gaman að hlusta á hana í hæfilegum skömmtum.

Á Illum heimi heldur Dölli áfram á sömu braut, reyndar svo að platan er svo gott sem hrein endurtekning á fyrrgreindri plötu. Gallinn er hins vegar sá að nú er ferskleikinn farinn og eftir standa endurtekin stef sungin og borin uppi af gítarleik listamannsins. Lögin eru öll keimlík, mun einhæfari og einsleitari en áður og vinna illa á við frekari hlustun, tónlistin er ekki beint leiðinleg en það hefði varla sakað að brjóta tónlistina upp með fleiri hljóðfærum, ekki endilega grunnhljóðfærum eins og trommum og bassa heldur fremur einstöku skreytingum þannig að lögin héldu sínum séreinkennum án þess að verða einhæf um of. Að mínu mati er aukaatriði hvort tónlistin á Illum heimi sé flutt lýtalaust, feilnótur annars vegar eða hnökraleysi hins vegar bera miklu fremur merki um persónuleg einkenni eða karakter tónlistarfólks heldur en mælikvarði á getu þess. Og Dölli lætur sem fyrr vaða.

Það getur verið erfitt að hlusta á rödd Dölla á köflum, það er líka stundum erfitt að hlusta á Megas, Tom Waits, Steinunni geimflaug og Leoncie, það þarfnast æfingar og úthalds sem maður fær með því að hlusta í hæfilegum skömmtum en Dölli bætir það upp að sumu leyti í þeim boðskap sem hann hefur fram að færa í ljóðum sínum. Þannig á Dölli að mínu mati best erindi við okkur sem fyrr þegar hann hundskammar okkur með beinskeittum heimsósómakvæðum sínum, vekur okkur til umhugsunar og lætur okkur heyra það óþvegið. Við fáum á baukinn sem foreldrar, umhverfisníðingar og ég veit ekki hvað og hvað, skólakerfið og stjórnvöld fá einnig sinn skammt en svo örlar inni á milli á heimspekilegum og allt að því fallegum vangaveltum um lífið og tilveruna eins og í ljóðinu Í kennslustofunni, stysta lagi plötunnar. Dölli bendir okkur á það sem við vitum svosem en gleymum iðulega, að þetta er illur heimur.

Ég verð að nefna umslag plötunnar sérstaklega en það virkar á mig eins og um barnaplötu sé að ræða, myndskreyting plötuumslags verður að hæfa efninu ef taka á útgáfuna alvarlega. Á hinn bóginn verður að hrósa Dölla fyrir að birta vel læsilega textana.

Illur heimur er ekki alslæm plata en hún bliknar nokkuð í samanburði við fyrri plötuna sem ég ber hana ítrekað við, þessu er kannski best líst með þeim orðum að hin platan var fersk af því að hún kom á undan á meðan þessi geldur þess að koma á eftir. Best er auðvitað fyrir áhugasama að bera þær saman en plöturnar eru fáanlegar á bandcamp-síðu Dölla sem og á Spotify. Í bæklingi plötunnar talar Dölli um að platan sé tilraun til að bjarga heiminum, einhvern veginn efast ég um að það takist með útgáfu hennar en það verður allavega gaman að sjá hvað Dölli gerir næst.