Kveður nú við nýjan tón

Dölli – Upp upp mín sál og mitt hjarta, milta, nýru, lungu og lifur með
Laglega lagið [án útgáfunúmers], 2017

 

 

Ekki verður annað sagt um Dölla (Sölva Jónsson) en að hann sé afkastamikill tónlistarmaður en platan Upp upp mín sál – og mitt hjarta, milta, nýru, lungu og lifur er fimmta plata hans, og það á aðeins um tveimur og hálfu ári.

Undirritaður fjallaði um þriðju og fjórðu plötur kappans hér á síðunni (Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum / Illur heimur) og var vel sáttur við þá fyrri en síður við hina seinni. Í gagnrýni um þá síðari nefndi ég að það myndi ekki saka að brjóta lögin upp með fleiri hljóðfærum og það er einmitt það sem Sölvi hefur nú gert á þessari nýju plötu sem nú verður fjallað um, en hann hefur fengið sér til halds og trausts Róbert Örn Hjálmtýsson sem er þekktastur fyrir að starfrækja hljómsveitina Ég, sem auk þess að leika á hin ýmsu hljóðfæri, annaðist útsetningar og hljóðblandaði plötuna.

Upp upp mín sál – og mitt hjarta, milta, nýru, lungu og lifur með, kom út nú á haustdögum og er tvískipt, annars vegar er um að ræða sjö laga framhaldssögu (Ferðalagið (le trip) I-VII) og hins vegar lög úr ýmsum áttum. Reyndar er svo að þessi útgáfa hefði hentað prýðilega á vínyl eins og svo vinsælt hefur verið undanfarið, fyrri hliðin hefði þá haft að geyma ferðalaga-konseptið en sú síðari hin lögin.

Ferðalagið er opnað með eins konar kynningu eða inngangi þar sem hlustandanum er gert ljóst að um eins konar ástarsögu í nokkrum köflum sé að ræða, í lögunum í framhaldinu er farið í „ferðalagið“ sem manni er reyndar ekki alveg ljóst hvort að er einungis til í kollinum á sögumanninum eða í raun og veru, og því ferðalagi lýkur ennfremur með dauða eða sýn í kolli sögumannsins – myndrænt en um leið draumkennt.

Þessi fyrri hluti gengur vel upp að mínu mati sem heild en lögin geta jafnframt staðið ein og sér, bestu lög Ferðalagsins eru „II“ en lagið minnir óneitanlega á Nýdanska svo ótrúlegt sem það hljómar, og „VI“ sem er nokkuð dramatísk lagasmíð – fyrrnefnda lagið er reyndar besta lag plötunnar.

Síðari hluti plötunnar er ögn sundurleitari enda koma lögin úr ýmsum áttum og líklega frá ýmsum tíma, allavega má þar heyra lagið Stormandi vindur sem var einnig að finna á Ó hve unaðslegt… en er þar í berstrípaðri kassagítarútgáfu, nýja útgáfan er klárlega bitastæðari og það er gaman að heyra samanburðinn.

En það kennir fleiri ýmissa grasa þarna, í laginu Þúsund vindar er farið aftur um aldir og fjallað um glæp og refsingu í kjölfarið í formi dauðadóms, lagið fellur prýðilega að efninu en þarna hefur verið farin sú leið að hafa hrynjandina í takti við hófadyninn sem maður sér fyrir sér í laginu. Umhverfissinninn Dölli lætur virkjanaglöð yfirvöldin enn heyra það í laginu um sveitina sína sem hefur misst öll sín náttúrueinkenni og mætir honum „aðeins þögnin ein / berar klappir og einsemdin“, og lýsir upplifun sem margir þekkja eflaust, „þetta er ekki lengr sveitin mín / en hér liggur taugin“.

Öllu léttari og skemmtilegri er textinn Bommsería og bommsassa, vel sýrður texti um djamm, fullur af kaldhæðni og endar með ósköpum. Lagið við þann texta er jafnframt það aðgengilegasta á plötunni og mest grípandi, myndi henta til útvarpsspilunar ásamt fyrrnefndu „II“. Upp upp minni sál er síðan lokað með laginu Inni í hlýjunni, stuttum og laggóðum rokkara – öfugt við það sem maður hefði sjálfur reiknað með.

Dölli kemur mér (og sjálfsagt fleirum) á óvart með þessari plötu, hér kveður við nýjan tón og það að klæða lagasmíðarnar í þennan smekklega búning er klárlega rétt ákvörðun, ég tel að hann hafi valið til þess rétta manninn en Róbert er ekki fremur en Dölli steyptur í mót mainstreamsins. Engu er ofaukið og ekkert vantar, smekklegheitin ráða ríkjum og hér fáum við m.a.s. að heyra gítarsóló sem hafa ekki verið beinlínis einkenni í tónlist Dölla fram að þessu enda vart hægt.

Dölli hefur ennfremur vaxið sem tónskáld, nú er erfitt fyrir undirritaðan að meta hverjar lagasmíða hans eru nýjar á plötunni og hverjar eru eldri en engum vafa er þó undirorpið að lakari lögin hafa lent í síu þeirra félaga og er vel. Hann hefur sterk höfundareinkenni og reyndar líka söngvaraeinkenni því rödd hans þekkist strax (og truflar suma), sjálfur þurfti ég við hlustun á fyrri plötum hans að meðtaka hann í skömmtum en það á ekki við á þessari nýjustu plötu.

Ég hef bent á það óbeint í fyrri plötudómum um Dölla að hann er ekki besti söngvari í heimi, og það hefur ekkert breyst – hins vegar gerir það tónlistina mun sérstæðari fyrir vikið og að mínu mati á enginn annar að syngja lögin hans.

Textarnir koma ekki lengur á óvart, Dölli er ekki dæmigerður að neinu leyti og því eru textarnir hans ekki fullir af „ég elska þig, þú elskar mig, við elskum bæði hvort annað – syndróminu“, og eru þ.a.l. áheyrilegri og áhugaverðari en ella, sérstaklega þegar hann fer af stað með skítadreifarann sem hefði reyndar mátt vera meira af á þessari plötu.

Þannig að Dölli tekur flugið á ný eftir slaka síðustu plötu og þeir félagar mega vera ánægðir með afraksturinn, óháð því hvort dagskrárgerðarfólk útvarpsstöðvanna kunni að meta listina eður ei en tónlist hans á sjaldnast upp á pallborðið hjá þeim sem ákveða hvað er best fyrir hinn almenna hlustanda.

Áfram Dölli.