Forvitnilegt en líklega ekki allra

Dölli – Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum

Ullútgáfan [án útgáfunúmers], 2016

þrjár stjörnur

Dölli - Ó hve unaðslegt það var þetta...

Dölli – Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum

Dölli (Sölvi Jónsson) birtist síðastliðið haust með ferska og öðruvísi barnaplötu sem bar titilinn Viltu vera memm? og vakti nokkra athygli fyrir skemmtilega textanálgun og ekki síður myndbönd. Platan, sem Dölli vann að mestu með Kristni Árnasyni gítarleikara, seldist reyndar sáralítið en Dölli fylgdi henni nokkuð eftir með spilamennsku m.a. á leikskólum.

Lítið hafði heyrst til Dölla á tónlistarsviðinu fram að útgáfu plötunnar en hann hafði þó tvívegis sent lög í trúbadorakeppni Rásar tvö fyrir um áratug og á að sögn í fórum sínum vel á annað hundrað laga og texta.

Dölli sendi nýlega frá sér aðra plötu, Ó hve unaðslegt það var þetta síðsumarskvöld þegar ég var brottnumin af fölbláu geimverunum, hún hefur verið til sölu á Facebooksíðu Dölla en er nú einnig fáanleg í Lucky records, Smekkleysu og fleiri betri en ört fækkandi plötubúðum.

Stór og mikill titill plötunnar er í hróplegu ósamræmi við minimalíska nálgun Dölla á viðfangsefni sitt en platan er borin uppi af einföldum kassagítarleik og söng með einstaka bakröddum, ekkert er nostrað við upptökurnar og einhverjir kysu að kalla þetta demó upptökur. Að mörgu leyti er slík nálgun heiðarlegust gagnvart hlustandanum sem upplifir þ.a.l. tónlistina eins ómengaða og hreina og hún framast getur orðið, einungis texta, laglínu og hljóma. En að sama skapi hljóta kröfurnar til lagasmíðanna að aukast, vonda laglínu er hægt að fela með alls kyns skrauti og ofanáhleðslu en vond laglína er einnig berskjölduð gagnvart hlustandanum svona ein og sér.

Tónlist Dölla er hægt að skilgreina sem hálfgerða utangarðstónlist, einyrkjahugtakið eins og Heiða í Unun hefur gjarnan kallað slíka tónlist í Langspilsþáttum sínum á Rás 2 á ágætlega við eða jafnvel hamfarapopp eins og Arnar Eggert Thoroddsen hefur fest í sessi. Hvort tveggja á jafn vel við og þarf síður en svo að hafa neikvæða merkingu, gallinn er hins vegar við slíka tónlist að mörgum „tónlistarsérfræðingunum“ á útvarpsstöðvunum sem „vita“ hvernig tónlist á að hljóma myndu aldrei hleypa henni í spilun, sem er auðvitað synd því Dölli er eins langt frá því að feta í þau tónlistarfótspor sem flestir stíga og því er hann áhugaverður.

Ó hve unaðslegt… var unnin á rétt tæpum mánuði síðasta haust, lög og ljóð voru þá samin og platan tekin upp. Og hún ber þess fullkomlega merki, við fyrstu hlustun fannst mér lítt til koma og frekar væri um hroðvirkni að ræða fremur en naumhyggjulega nálgun.

En platan vinnur á við nánari hlustun og smám saman tók ég hana í sátt með kostum sínum og göllum, lögin eru hvorki djúpar smíðar né flóknar enda í anda nálgunarinnar, oft lítið meira en endurtekin stef, en þær eru fyrst og fremst sannar og heiðarleikar lagasmíðar. Bestu lögin að mínu mati eru Með blóðið upp að öxlum, Ljósin og Júlli Jóns á hæðinni.

Það getur reynt virkilega á að hlusta á Dölla, raddbeiting hans sker í eyrum á hæstu tónunum og lægstu tónarnir heyrast varla en þess á milli virkar söngröddin fremur eintóna, svolítið eins og tónlistarmaðurinn Insol. Á köflum er eins og Megas sé mættur, jafnvel Hörður Torfa og í laginu um Júlla Jóns á hæðinni beitir Dölli m.a.s. atkvæðaáherslum eins og sjálfur Dr. Gunni gerir stundum, og þar er auðvitað ekki leiðum að líkjast.

Ljóðin eru líklega sterkasti hluti plötunnar, Dölla er á köflum mikið niðri fyrir, hann hefur heilmikið að segja og ljóð hans eru allt frá því að vera húmorískar örpælingar upp í hárbeittar ádeilur á samfélagið og nútímann, jafnvel dulbúnar kynferðislegar skírskotanir eins og í titillaginu. Hann notast ekki við ljóðstafi, rím eða hefðbundið innrammað form heldur leyfir sér algert frjálsræði sem á köflum verður að orðaleikjum, sbr. hóffar á jökulrönd / hófum för hjá jökulrönd / hof nærri jökulrönd.

Og því er ekki að neita að Megas kemur upp í hugann þegar yrkisefnið er krufið í lögum eins og Kemur okkur í gott skap og Á hjólastólnum. Þannig hefur maður á tilfinningunni að Dölli sé ljóðlesinn og í laginu Ljósin er að finna klára skírskotun í ljóð Jóhanns Gunnars Sigurðssonar, Kveðið í gljúfrum.

Stærsti galli útgáfunnar er umslag plötunnar. Reyndar inniheldur umslagið textana og það með læsilegu letri sem er undantekning fremur en regla núorðið og fyrir það fær Dölli auðvitað plús en útlitshönnunin á miklu fremur við barnaplötu á borð við fyrri plötu Dölla og er því í nokkru ósamræmi við efni þessarar plötu. Annað – jafnvel hvað sem er, hefði átt betur við en einfaldar teiknaðar myndir á hvítum grunni.

En Dölli lætur vaða með þessari plötu, hann stingur sér í djúpu laugina með tónlist sem er ekki allra og ég virði það, en til að læra að meta tónlistina þarf fyrst og fremst að hlusta á hana. Lögin vinna mismikið á og það togast á í mér hvort hann hefði átt að gefa plötunni meiri yfirlegu eða hvort þessi nálgun sé fullkomlega rétt. En þá hugsar maður – ef Dölla finnst hún rétt þá er hún rétt.