Samkór Reykjavíkur [1] (1943-55)

samkor-reykjavikur-1-1954

Samkór Reykjavíkur

Samkór Reykjavíkur starfaði í um áratug um miðja síðustu öld, erfitt reyndist þó að manna söngstjórastöðu fyrir þennan fjölmennasta kór landsins og svo fór að lokum að starfsemi hans lagðist niður.

Það var Jóhann Tryggvason sem hafði veg og vanda að stofnun kórsins en byrjað var að auglýsa eftir söngfólki um haustið 1942, hann var síðan formlega stofnaður í febrúar 1943.

Samkór Reykjavíkur samanstóð í fyrstu annars vegar af röddum úr stúlknakórnum Svölunum og hins vegar Karlakórnum Örnum en Jóhann var söngstjóri beggja kóranna. Fleiri bættist í hópinn og hann varð undir stjórn Jóhann fjölmennasti kór landsins með um sextíu manns innanborðs. Karlakórinn Ernir starfaði eitthvað áfram sem sjálfstæð eining en svo fór að lokum að hann var lagður niður.

Undir stjórn Jóhanns gekk Samkór Reykjavíkur til liðs við Landsamband blandaðra kóra 1944 og það sama ár hélt kórinn m.a. tónleika til styrktar byggingu tónlistarhúss, það voru fyrstu slíku tónleikarnir sem haldnir voru en margir áratugir áttu eftir að líða uns tónleikahúsið tók til starfa, það var tónlistarhúsið Harpa árið 2011.

Þegar Jóhann fluttist til Bretlands til námsdvalar haustið 1945 lágu söngæfingar niðri um tíma, reyndar var kórinn starfandi áfram sem félagsskapur og mun hafa sungið við einhver tækifæri þrátt fyrir allt, það var þó ekki fyrr en í ársbyrjun 1949 að nýr stjórnandi hóf störf við kórinn en það var Páll Kr. Pálsson. Páll var ekki lengi við stjórnvölinn því hann hætti 1950 og aftur lagðist því kórastarfið niður.

Vorið 1952 tók Róbert A. Ottósson við stjórn Samkór Reykjavíkur en tæplega ár leið þar til kórinn söng opinberlega undir hans stjórn. Kórinn söng þá á tónleikum ásamt Sinfóníuhljómsveit Íslands sem þá var tiltölulega nýlega stofnaður. Og kórinn fór víða undir stjórn Róberts, hann söng auðvitað mestmegnis hér heima en einnig á norrænu kóramóti í Noregi sumarið 1954, í þeirri ferð söng kórinn einnig í Finnlandi.

Til stóð að kórinn syngi inn á plötur fyrir Íslenska tóna í Noregsferðinni en engar upplýsingar finnast um þær upptökur eða útgáfu þeirra.

Svo virðist sem upp frá því hafi smám saman fjarað undan kórnum, líklega hætti Róbert með hann fljótlega upp úr Noregsferðinni 1954 en litlar sem engar heimildir er að finna um það hvenær Samkór Reykjavíkur hætti endanlega. Það hefur líkast til verið um eða eftir miðjan sjötta áratuginn.