Templarakórinn (1932-63)

Templarakórinn 1963

Góðtemplarar (IOGT – félag bindindisfólks) starfræktu blandaðan kór í áratugi sem oftast gekk undir nafninu Templarakórinn en einnig Söngfélag IOGT, Kór IOGT, Kór Templara, Samkór IOGT, IOGT kórinn o.fl.

Tilurð kórsins var sú að sumarið 1932 fór hópur Templara í skemmtiferð til Þingvalla og þar var sungið mikið, sú hugmynd kom því upp að stofna söngfélag innan félagsskaparins og varð úr að hann var stofnaður á haustdögum 1932 og söng í fyrsta sinni opinberlega vorið eftir.

Í fyrstu voru söngfélagar um þrjátíu og fimm talsins og fjölgaði síðan upp í um fimmtíu. Sönglífið blómstraði og kórinn kom margsinnis fram á þessum fyrstu árum og söng þá undir stjórn Jakobs Tryggvasonar en hann stýrði kórnum til ársins 1941 en þá flutti hann norður til Akureyrar þar sem hann átti eftir að verða mikill frumkvöðull í tónlistarlífi bæjarbúa.

Jóhann Tryggvason tók við stjórn kórsins 1941 og stýrði kórnum í tvö ár, hann hætti 1943 til að stofna Samkór Reykjavíkur og tók þá með sér nokkurt af besta söngfólkinu úr kórnum svo nærri lá að það gengi af honum dauðum. Næstu tvö árin voru því erfið fyrir Templarakórinn því ekki var sjálfgefið að finna söngfólk úr röðum bindindisfólks. Það varð kórnum til lífs að Ottó Guðjónsson tók við söngstjórninni 1945 og hann var síðan við stjórnvölinn þar til yfir lauk (fyrir utan eitt ár (1951) sem Jón Ísleifsson stýrði kórnum) en Templarakórinn starfaði líklega allt til ársins 1963.

Templarakórinn var lengi með öflugri blönduðum kórum landsins og átti m.a. frumkvæði að stofnun Landssambands blandaðra kóra 1938, söngur kórsins mun hvergi hafa komið út á hljómplötum en Ríkisútvarpið lumar að öllum líkindum á einhverjum upptökum með kórnum. Hafliði Jónsson var lengstum um undirleikari hans.