Telpnakór Jóns Ísleifssonar (1937-45)

Telpnakór Jóns Ísleifssonar (Erlur)

Telpnakór Jóns Ísleifssonar (einnig nefndur Erlur og síðar Svölur) starfaði undir nokkurra ára skeið undir stjórn söngkennarans og kórstjórnandans Jóns Ísleifssonar.

Jón Ísleifsson, sem reyndar stofnaði og stjórnaði fjölmörgum kórum um miðja síðustu öld, stofnaði telpnakórinn líklega snemma árs 1937 fremur en haustið 1936 og innihélt hann um fjörutíu og allt upp í sjötíu stúlkur. Kórinn starfaði líkast til til ársins 1945, jafnvel lengur og á þeim tíma söng hann reglulega við barnaguðsþjónustur í Dómkirkjunni (kórinn gekk einnig undir nafninu Telpnakór Dómkirkjunnar) en einnig á söngskemmtunum og tónleikum sem haldin voru við ýmis tækifæri s.s. á barnadaginn svokallaða í apríl ár hvert. Þá söng hann margsinnis í barnatíma útvarpsins.

Kórinn hafði að geyma mestmegnis stúlkur úr Miðbæjarskólanum en einnig voru nokkrar úr Austurbæjarskóla, þær voru flestar á aldrinum 11-14 ára gamlar.