Stúlknakór Hlíðaskóla (1975-79)

Stúlknakór Hlíðaskóla

Upplýsingar um Stúlknakór Hlíðaskóla eru af skornum skammti enda voru kórar starfandi við skólann um árabil undir ýmsum nöfnum s.s. Barnakór Hlíðaskóla (sem m.a. gaf út smáskífu á sjötta áratugnum) og Skólakór Hlíðaskóla en Guðrún Þorsteinsdóttir var lengst af stjórnandi kóranna. Árið 1971 starfaði þar kór undir nafninu Kór unglingadeildar Hlíðaskóla undir stjórn Sigríðar Sigurðardóttur og tveimur árum síðar einnig kór undir stjórn Guðmundar Emilssonar, þeir kórar voru líkast til báðir skipaðir eldri nemendum skólans og barnakór var þá líklega starfandi samhliða þeim enda munu bæði yngri og eldri kórinn hafa tekið þátt í uppfærslu á Stabat Maber ásamt hljómsveit og einsöngvurum.

Ef því sem næst verður komist var Stúlknakór Hlíðaskóla stofnaður árið 1975 og gæti hafa gengið undir nafninu Telpnakór Hlíðaskóla í byrjun en þessi nýi kór starfaði undir stjórn Jóns Kristins Cortez. Kórinn hefur væntanlega verið skipaður gömlum nemendum úr barnakórnum en drengirnir voru þarna horfnir á brott og stúlkur skipuðu kórinn því eingöngu.

Stúlknakór Hlíðaskóla starfaði í einhvern tíma þótt ekki sé ljóst hversu lengi, plata kom út með kórnum fyrir jólin 1978 en nýtt útgáfufélag Jóns Kristins og Garðars bróður hans undir nafninu Ísalög, gaf plötuna út en hún bar heitið Bjart er yfir Betlehem. Platan kom seint á markaðinn eftir tafir í framleiðslu í Bandaríkjunum og náði því varla í jólapakkana, en hún hlaut þó ágæta dóma í Dagblaðinu rétt fyrir jól.

Ekki liggja neinar upplýsingar um kórinn eftir að platan leit dagsins ljós en líklegt hlýtur að teljast að hann hafi starfað fram á vorið 1979 þar eð um skólakór var að ræða.

Efni á plötum