Telpnakórinn Svölur starfaði um nokkurra ára skeið á fimmta áratug síðustu aldar og setti þá heilmikinn svip á sönglíf Reykvíkinga en kórinn kom fram við ýmis hátíðleg tækifæri, t.a.m. á sumardaginn fyrsta sem þá var í hávegum hafður.
Það var Jóhann Tryggvason söngkennari við Austurbæjarskóla sem setti Svölurnar á laggirnar haustið 1941 úr úrvali efnilegra nemenda sinna við skólann, og var fyrsti stjórnandi þeirra. Kórinn söng fljótlega í útvarpssal um haustið og svo í framhaldinu víða um borgina og við ýmis tækifæri eins og fyrr segir. Árið 1943 tók Jón Ísleifsson við stjórn kórsins en hann var kunnur barnakórastjórnandi um þær mundir og urðu Svölurnar hluti af telpnakór hans um tíma. Svölurnar öðluðust svo eiginlegt sjálfstæði á nýjan leik þegar Guðjón Bjarnarson, annar kunnur barnakórastjórnandi tók við kórnum og virðist sem kórinn hafi starfað undir hans stjórn allt til 1949.