Dalakofinn

Dalakofinn
(Lag / texti: Arch Joyce / Davíð Stefánsson)

Vertu hjá mér Dísa, meðan kvöldsins klukkur hringja
og kaldir stormar næða um skóg og eyðisand.
Þá skal ég okkur bæði yfir djúpið dökka syngja
heim í dalinn, þar sem ég ætla að byggja og nema land.

Kysstu mig, kysstu mig. Þú þekkir dalinn, Dísa,
þar sem dvergar búa í steinum, og vofur læðast hljótt,
og hörpusláttur berst yfir hjarn og bláa ísa,
og huldufólkið dansar um stjörnubjarta nótt.

Þó landið okkar, Dísa, sé vetrarörmum vafið,
þá veit ég að þú hræðist það ekki að fylgja mér,
því senn mun vorið koma að sunnan, yfir hafið.
Ég sé það speglast, Dísa, í augunum á þér.

Og sólin bræðir fönnina af fjöllum og af engjum
og fuglarnir þeir syngja og loftin verða blá,
og jörðin verður harpa með hundrað þúsund strengjum,
sem heilladísir vorsins í sólskininu slá.

Þá hlæja hvítir fossar, þá hljóma strengir allir,
þá hlýnar allt og brosir, þá fagna menn og dýr,
þá leiðast ungir vinir um vorsins skógarhallir,
þá verður nóttin dagur, og lífið ævintýr.

Og meðan blómin anga og sorgir okkar sofa,
er sælt að vera fátækur, elsku Dísa mín,
og byggja sér í lyngholti lítinn dalakofa
við lindina sem minnir á bláu augun þín.

Svo vef ég okkur klæði en stakk þú úr því sníður,
til strandarinnar ríð ég og kaupi mjög og fisk,
svo ríf ég hrís í eldinn, þú bakar brauð og sýður,
svo borðum við með velþóknun af sama hörpudisk.

Í kofanum skal gangandi og gestum veislur halda,
og gleðin skal þar ríkja, þó vistir þrjóti fljótt,
en sólgyðjan mun veggina dýrum dúkum tjalda,
svo dönsum við og syngjum og hlæjum fram á nótt.

En oft er þröngt í búi og dimmt í dalakofa,
og drottning verður engin, sem þangað fylgir mér.
Sé Dísa litla þreytt, þá skal Dísa fá að sofa
og Dísa, ég skal svæfa þig og vaka yfir þér.

Og þig skal ekki saka um niðadimmar nætur,
er næðingarnir geisa og barmur jarðar frýs.
Og ég skal hugga Dísu ef Dísa litla grætur,
sé Dísu litlu kalt, skal ég rífa meira hrís.

Ég elska þig, ég elska þig og dalinn, Dísa,
og dalurinn og fjöllin og blómin elska þig.
Í norðri brenna stjörnur sem veginn okkar vísa,
og vorið kemur bráðum, Dísa – kysstu mig.

[m.a. á plötunni Karlakórinn Hreimur – Vinafundur]