Stína

Stína
(Lag / texti: erlent lag (Dalakofinn) / Rósberg G. Snædal)

Vertu hjá mér Stína, meðan stjörnur allar blika
og stormar kaldir næða um dökkan furuskóg.
Af ástarsöngvum hljóma skal öll hin næsta vika
og inn í dalinn flytjum við, þar pabbi gamli bjó.

Það glotta litlir fossar og bunur brosa í gjótum,
og bærilegt það verður að skola úr sokkum þar.
Og jörðin verður orgel með átján þúsund nótum
og ungir piltar dansa og stunda kvennafar.

Og eigi maður frakka og nóg að bíta og brenna
er best að vera fátækur, elsku Stína mín.
Svo reisum við upp tjaldbúð er fer að storma og fenna
hjá fljótinu sem minnir á gráu augun þín.

Og hafragraut við borðum af hörpudiski smáum
og höfum bæði sykur og rjóma út á hann.
Og máske þegar rökkvar, við molakaffi fáum,
svo mætti vera landi, það er seinni útgáfan.

En best af öllu verður í niðamyrkri nætur
að njóta lífsins saman á vökudraumsins strönd.
En strax það skaltu vita, ó Stína ef þú grætur
og stríðir mér, að þá skal ég rífa hrís í vönd.

Ég elska þig svo mikið og stórkostlega, Stína,
mér stendur ekki á sama, þú ert svo dásamleg.
Og það er um að gera að hugsa um sig sína,
er sólin gengur undir, æ Stína, kysstu mig.

[óútgefið]