Dans um ágústnótt

Dans um ágústnótt
(Lag / texti: Gunnar Þórðarson / Jónas Friðrik Guðnason)

Um sumarkvöld þau sáust fyrst og sumarkvöldið það
var sveipað höfgum blómailm og mildum töfrablæ
sem fyllti hjartað draumum eins og á sér stundum stað.
Og stráði gullnu bliki yfir lönd og yfir sæ.
Og stráði gullnu bliki yfir lönd og yfir sæ.

Þau dönsuðu það sumarkvöld og svifu undur létt
og sólin hvarf af himninum í djúpið roðagyllt
og allt var gott og fagurt þá og allt var gott og rétt
og ekkert til í heimi sem gat draumi  þeirra spillt.
Og ekkert til í heimi sem gat draumi  þeirra spillt.

Þau dönsuðu það sumarkvöld og enginn, enginn veit
um orð sem var þá hvíslað út í rökkrið blítt og hljótt.
Svo töfrandi og áfeng og svo undarlega heit,
þau orð sem geta aðeins heyrst um slíka töfranótt.
Þau orð sem geta aðeins heyrst um slíka töfranótt.

Þau dönsuðu þá nótt uns sól úr djúpi reis á ný
og dagurinn með frekju inn í veröld þeirra braust
með svala gráa birtu og með sorta þrungin ský
því sumarnætur enda og svo kemur dapurt haust.
því sumarnætur enda og svo kemur dapurt haust.

Um sumarkvöld þau sáust fyrst og sumarkvöldið það
var sveipað höfgum blómailm og mildum töfrablæ
sem fyllti hjartað draumum eins og á sér stundum stað
og stráði gullnu bliki yfir lönd og yfir sæ.
Og stráði gullnu bliki yfir lönd og yfir sæ.

[á plötunni Ríó tríó – Lengi getur vont versnað]