Ó, borg mín borg

Ó, borg mín borg
(Lag / texti: Haukur Morthens / Vilhjálmur frá Skáholti)

Ó, borg mín, borg, ég lofa ljóst þín stræti,
þín lágu hús og allt, sem fyrir ber.
Og þótt svo tárið oft minn vanga væti,
er von mín einatt, einatt bundin þér.
Og hversu, sem að aðrir í þig narta,
þig eðla borg, sem forðum prýddir mig,
svo blítt, svo blítt sem barnsins unga hjarta
er brjóst mitt fullt af minningum um þig.

Ég gleðst í þér, þó ber ég vangann bleyttan
af beiskum tárum, hér á þessum stað.
En hversvegna ég geng og græt mig þreyttan
Guð á himnum, einn, veit bezt um það.

Það fór nú svo, ég féll í þína arma;
þú fræddir mig um Guð, sem önnur börn.
Þú átt svo margt, sem mýkir lífsins harma,
og meðal annars þína fögru tjörn.
Svo áttu líka landsins beztu drengi,
sem lifa spart og taka aldrei lán.
Ó, litla borg, ég gleð mig við þitt gengi,
en græt mig þreyttan yfir Köbenhavn.

Já, tjörnin þín er tjarna bezt í heimi.
Við tjarnarendann landsins dýrsti rann,
og að ég ekki álftum þínum gleymi,
sem einn af beztu sonum þínum fann.
Og hvílíkt djásn er ei sá helgi hringur?
hólminn, þar sem krían á sitt skjól.
Ó, ljúfa borg, ég lofa allt þitt glingur,
sem liggur fágað kringum Arnarhól.

Sjá glingur þitt er gjöf úr helgum sjóði,
sumt glitrar eins og helgilín í kór.
Það minnir mig í litum og í ljóði
á lítinn dreng, sem þráði að verða stór.

Og fyrir þig ég vil svo gjarnan vinna,
vinna þér, sem aðeins fáum ber.
Þú hefur eflaust öðrum meira að sinna,
en ansa slíkum kjánaskap úr mér.
Ó, fyrirgefðu, ef flónskar bænir ynnu
á fjötrunum, sem liggja mér um háls.
En auðvitað á enginn rétt á vinnu
og efalaust er bezt að vera frjáls.

Þótt aldrei muni óskir mínar rætast,
um öll þín beztu dýrlegheit ég syng.
Ég lofa það, sem líf mitt gerði sætast,
þinn ljósa dag og bláa fjallahring.
Og ávallt hoppar hjarta mitt af kæti,
ef horfi ég á gullnu torgin þín.
Ó, borg, mín borg, ég lofa ljóst þín stræti,
þín lágu hús, þitt gull og brennivín.

Ó, ljúfa borg, ég lofa einnig hrærður
loftið blátt – og drekk því gullna skál,
því aldrei mun ég svo í fjötra færður,
að fegurð þín ei gleðji mína sál.

Þótt ávallt sértu einhvern vegin skrýtin
og ofurtlítið stolt af þinni sól;
ég geri mig í góðu við þig lítinn
og gala nafn þitt vítt um heimsins ból.
Um síð, um síð ég kem og krýp þér aumur
og kyssi jafnvel hörðu stræti þín.
Því af þér fæddist lífs míns ljósi draumur,
eitt lítið barn og það var ástin mín.

Því um það bil, sem illar vættir sóttu
á minn skrokk, með djöfullegar klær,
hún kom til mín sem draumur á dimmri nóttu
með drengjakoll og leir um berar tær.
Og ennþá hlýnar hugur eins af kæti,
ef hugur þess nær tengd við barnið sitt;
því mun ég, borg mín, lofa lengst þau stræti,
sem liggja á víxl í gegnum hjarta mitt.

[m.a. á plötunni Haukur Morthens – Melódíur minninganna]